Vor – upplifun

Vor - upplifun

Vorið er komið og grundirnar gróa

Með vorinu tekur að hlýna eftir veturinn og lífríkið vaknar hægt og rólega úr löngum vetrardvala. Snjófannir þynnast og hverfa úr fjöllum, lækir brjóta af sér klakabönd vetrarins. Vorleysingar, þegar snjór bráðnar skyndilega í miklum hlýindum, geta oft valdið tjóni á mannvirkjum svo sem vegum og brúm. Farfuglarnir sem hafa varið vetrinum í hlýrri löndum, koma til landsins á vorin, hefja hreiðurgerð og ungar skríða úr eggjum. Í móum hefur lóan upp sitt dirrindí og spóinn vellir en við ströndina setjast sjófuglar í kletta. Tré bruma þegar litlir grænir hnappar myndast á greinum og laufgast, grasið grænkar og flugur og önnur smádýr fara á stjá.

Hvernig breytast hljóð náttúrunnar og lyktin með vorinu? Hvaða fugla tengir þú sérstaklega við vorið?

Merktu X við það sem þú sérð, heyrir og finnur á vorin!

Árstíð: Vor Aldur: 6+ ára

Markmið: fylgjast með vorinu koma, hvernig mismunandi lífverur bregðast við hlýnandi veðurfari. Að beina athyglinni að náttúrunni, njóta útivistar og efla núvitund og náttúrulæsi.