Víðerni
Víðerni


Víðerni köllum við stór og villt svæði sem eru fjarri vegum og öðrum ummerkjum mannsins. Ísland er ríkt af víðernum og eru þau flest uppi á hálendinu þar sem stórir jöklar, heiðar, sandar og fjallgarðar teygja sig svo langt sem augað eygir. Enginn býr í víðernunum heldur eru þau heimili villtra dýra og plantna sem maðurinn getur heimsótt til að njóta einveru og kyrrðar, og upplifa með því náttúruna í öllu sínu veldi.
Segja má að víðerni séu þau svæði Jarðar sem maðurinn hefur ekki enn brotið undir sig og þar sem náttúran fær að dafna án afskipta okkar. Þau eru sjaldgæf á Jörðinni og minnka með hverju ári vegna þess að maðurinn leggur sífellt ný lönd undir sig, heggur skóga, byggir vegi og stíflar fljót. Jörðin og lífríki hennar þurfa hins vegar á ósnortinni náttúru að halda til að þrífast vel og þess vegna er mikilvægt að vernda síðustu víðernin svo þau hverfi ekki endanlega.


