Vatnajökull
Vatnajökull


Vatnajökull er einn stærsti jökull Jarðar utan heimskautasvæðanna. Hann þekur rúmlega 7% af Íslandi og er um helmingur af flatarmáli Vatnajökulsþjóðgarðs sem nær yfir um 15% af Íslandi.
Vatnajökull er hjarta Vatnajökulsþjóðgarðs sem er langstærsti þjóðgarður Íslands. Vegna þess hve jarðfræði og náttúran í Vatnajökulsþjóðgarði er sérstök, með samspil eldfjalla og jökla, er Vatnajökulsþjóðgarður á sérstakri skrá yfir heimsminjar sem tilheyra öllu mannkyni og ber að vernda, svokallaðri heimsminjaskrá UNESCO.Heimsminjaskrá UNESCO er alþjóðleg skrá stofnunar sem heitir UNESCO yfir sérstaka staði alls staðar í heiminum sem þarf að vernda vegna merkilegrar náttúru eða menningar, t.d. náttúruverndarsvæði, fornminjar eða byggingar. Við Íslendingar berum því mikla ábyrgð á að vernda náttúruna allt í kringum jökulinn, og auðvitað jökulinn sjálfan.
Vatnajökull er stór og mikill, líkt og skjöldur ofan á landinu. Við köllum svona stóra jökla eins og Vatnajökul oft jökulhvel eða jökulbreiður. Undir jöklinum leynist alls konar landslag, stór fjöll, tindar, dalir og sléttur, sem við sjáum ekki því jökullinn hylur landslagið. Við vitum hins vegar hvernig landið undir jöklinum lítur út því það er hægt að skoða það með jöklasjá, sem er tæki sem getur séð í gegnum jökulísinn niður á botn jökulsins, svolítið líkt og röntgentæki sem sjá bein líkama okkar. Frá hinu stóra jökulhveli Vatnajökuls teygja sig svo margir minni jöklar sem hreyfast hægt niður á láglendið í kringum jökulinn líkt og tungur út úr jöklinum. Þessar jökultungur kallast skriðjöklar því þær hreyfast hægt og rólega, þær skríða niður fjallshlíðar út frá aðaljöklinum sjálfum. Þær eru mismunandi að stærð og gerð, sumir skriðjöklar eru breiðir og aflíðandi en aðrir mjóir og brattir.
Eins og aðrir jöklar landsins þá minnkar Vatnajökull vegna loftslagsbreytinga, jörðin er að hlýna. Skriðjöklarnir bráðna því og styttast og lækka með hverju ári og jöklafræðingarJöklafræðingur er vísindamaður sem rannsakar jökla. hafa áætlað að innan nokkurra áratuga verði margir þeirra alveg horfnir. Fyrir framan skriðjöklana eru víða stór jökullón sem hafa orðið til eftir að jöklarnir fóru að bráðna og minnka. Á jökullónunum fljóta gjarnan stórir ísjakar sem brotna af jökulsporðunum. Sumir þeirra eru fagurbláir en við sjáum bara toppana á ísjökunum því stærsti hluti þeirra er undir vatnsborðinu. Því getur verið hættulegt að sigla of nálægt þeim því þá getum við siglt á þá eða þeir byrja að hreyfast.





Fæðuvefur í stöðuvatni