Náttúruvernd

Náttúruvernd

Steinskilti við Hvannalindir. Mynd: Stefanía Ragnarsdóttir

Oft hugsum við um manninn og náttúruna sem tvo aðskilda hluti. Í raun erum við mannfólkið samt hluti náttúrunnar eins og aðrar lífverur Jarðar. Það þýðir að þegar náttúrunni og öðrum lífverum gengur illa þá er framtíðin ekki heldur björt fyrir okkur. Náttúruvernd snýst því um að passa vel upp á alla hluta náttúrunnar svo öllum lífverum gangi sem best saman á jörðinni. Það er ekki nóg að hugsa bara um okkur mannfólkið því án allra hinna lífveranna, frá þeim stærstu til hinna minnstu, þá getur mjög margt farið úrskeiðis í gangi náttúrunnar.

Í þúsundir ára hefur maðurinn nýtt náttúruna, byggt borgir og bæi, þróað flókna tækni og fundið svör við alls konar ráðgátum heimsins. Náttúran er margbreytilegri en okkur órar fyrir og hún geymir ótrúlegustu hluti sem geta bætt líf okkar. Síðustu aldir hefur hins vegar mannkynið gengið sífellt lengra á auðlindir náttúrunnar og núna er margt í hringrás Jarðar farið að bila. Með sama áframhaldi gætu mikilvægir hlutar náttúrunnar hrunið með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir okkur og allt líf Jarðar.

Síðustu áratugi hefur mannkynið brennt mikið af kolum og olíu sem hefur þau áhrif á andrúmsloftið að loftslag jarðar hlýnar. Við tölum þá oftast um loftslagsbreytingar, hlýnun Jarðar, eða jafnvel hamfarahlýnun af mannavöldum. Flestum lífverum líður best við ákveðið hitastig og umhverfisaðstæður, og ef það breytist mikið verður lífsbaráttan erfiðari. Sumar tegundir lífvera geta ekki aðlagað sig að breyttum aðstæðum, t.d. hærra hitastigi og miklum þurrkum, svo þær deyja út. Út af þessu þurfum við að draga mjög hratt úr notkun jarðefnaeldsneytis og hætta sem fyrst að brenna olíu og kolum. Ef heimkynnum dýra og annarra lífvera er gjörbreytt eða þau eyðilögð þá hafa lífverurnar engan stað til að búa á og mjög oft geta þær ekki flutt sig annað. Við þurfum því að passa vel upp á umhverfi annarra lífvera, að eyðileggja ekki heimili þeirra með ágangi á náttúruna eða með því að menga umhverfið með hættulegum efnum. Tegundir geta líka horfið ef maðurinn veiðir of mikið af þeim, eins og gerðist með geirfuglinn sem var útrýmt fyrir næstum því 200 árum.

Náttúruvernd snýst um að vinna á móti þessum ógnum við náttúruna og lífverur hennar, svo ferli náttúrunnar hrynji ekki. Við getum gert margt í okkar daglega lífi sem verndar náttúruna, en svo þurfum við líka að hugsa í stærra samhengi og vernda ólík landsvæði, hafið, vötn og ár því þetta eru allt heimkynni mjög fjölbreyttra og ólíkra lífvera sem skipta allar máli í hinum flókna vef náttúrunnar.

Að stofna þjóðgarð eins og Vatnajökulsþjóðgarð er gott dæmi um náttúruvernd þar sem tekin er ákvörðun um að vernda stórt og sérstakt landsvæði, þar sem viðkvæm en mikilvæg náttúra fær pláss og tækifæri til að dafna án þess að maðurinn hafi áhrif á hana og lífverur hennar. Í þjóðgarðinum er passað vel upp á náttúruna og að gestir gangi vel um. Landverðir fræða líka gesti um náttúruvernd og mikilvægi hennar. Með því að fara og heimsækja þjóðgarða og önnur friðlýst svæði áttum við okkur því á mikilvægi ósnortinnar náttúru. Við getum í raun sagt að með því að fara út í náttúruna og upplifa fegurð hennar og gildi séum við að stunda náttúruvernd.

Mólendi. Snorri Baldursson

Hraungambri í Lakagígum. Mynd: Stefanía Ragnarsdóttir

Skjálfandafljót. Mynd: Helga Aradóttir

Morsárdalur. Mynd: Auður Lilja Arnþórsdóttir

Fæðuvefur í stöðuvatni