Lakagígar
Lakagígar


Lakagígar eru löng röð eldgíga uppi á hálendinu vestan við Vatnajökul og norðan við Kirkjubæjarklaustur. Þeir urðu til í risaeldgosi fyrir um 240 árum. Frá Lakagígum rann mesta hraun sem komið hefur upp í nokkru eldgosi á Jörðinni síðustu þúsund ár. Þetta eldgos er því með allramestu náttúruhamförum sem orðið hafa á Íslandi frá því landnámsmennirnir komu hingað fyrst.
Eldgosið hófst sumarið 1783. Í þá daga fóru Íslendingar ekki oft upp á hálendi og þekktu öræfin á þessu svæði lítið en gosið var svo stórt að það fór ekki fram hjá neinum niðri í sveitunum. Fljótt eftir að gosið hófst barst mikil aska yfir landið og hið stóra jökulfljót Skaftá sem rennur fram hjá Kirkjubæjarklaustri þornaði upp vegna þess að hraunstraumurinn frá eldgosinu rann ofan í gljúfur árinnar og stíflaði hana. Aðeins fjórum dögum eftir að gosið hófst æddi hraunið niður í sveitina og á örfáum vikum breiddi það úr sér og eirði enguAð „eira engu“ þýðir að hraunið rann yfir og eyðilagði algjörlega allt sem varð fyrir því. heldur rann yfir tún og fjölda sveitabæja.
Hraunstraumurinn sjálfur var ekki það eina sem ógnaði íbúum sveitanna því mikil mengun kom frá eldgosinu. Eiturgufur fylgja alltaf eldgosum og í risaeldgosinu í Lakagígum voru eiturgufurnar svo miklar að blátt hættulegt eiturský lagðist yfir landið svo húsdýr dóu og gróður fölnaði. Mengunarský frá eldgosum eru kölluð móða og erfiðleikatímabilið sem fylgdi eldgosinu hefur því verið kallað móðuharðindin.
Þekktasta sagan frá eldgosinu er þegar presturinn Jón SteingrímssonJón Steingrímsson var prestur og náttúrufræðingur sem bjó á Prestbakka rétt hjá Kirkjubæjarklaustri á meðan gaus í Lakagígum og skrifaði þekkt rit um eldgosið eftir að því lauk. hélt messu í kirkjunni við Kirkjubæjarklaustur, nokkrum vikum eftir að eldgosið hófst. Þá var hraunstraumurinn næstum því kominn alla leið að bænum og bjuggust kirkjugestir við því að hraunið myndi gleypa kirkjuna skömmu síðar. Þegar messunni lauk fóru gestirnir út en sáu þá að hraunið hafði stöðvast minna en kílómetra frá kirkjunni og bjargaðist hún frá hrauninu. Þar sem hraunið stöðvaðist er tangi sem kallast nú Messutangi.
Eldgosið stóð yfir í átta mánuði og rann þykkt og mikið hraun niður af hálendinu á tveimur stöðum og eyddi mörgum sveitabæjum. Hraunið er úfið og erfitt yfirferðar en mosa vaxið og fallegt á að líta. Núna er hægt að fara á jeppa um hálendisslóða upp að sjálfum Lakagígum og skoða þá. Þeir eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og friðaðir. Margar gönguleiðir eru um svæðið en gígarnir eru viðkvæmir svo ekki má fara út af gönguslóðunum. Gígarnir eru flestir svartir að sjá en víða grænir af mosa og hér og þar eru jafnvel lítil vötn inni í gígunum sjálfum, eins og í Tjarnagíg.


