Jökulsárlón

Jökulsárlón

Breiðamerkurjökull. Mynd: Helgi Guðmundsson

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, sem er oftast einfaldlega kallað Jökulsárlón, er eitt þekktasta náttúrufyrirbrigði Íslands. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er það samt nánast glænýtt, minna en hundrað ára gamalt!

Loftslag á Jörðinni er sífellt að hlýna og það hefur þau áhrif á jökla Íslands að þeir bráðna og minnka með hverju ári. Fyrir hundrað árum var Vatnajökull mun stærri en hann er í dag og skriðjöklar frá Vatnajökli lágu lengra út á láglendið umhverfis jökulinn. Þá náði Breiðamerkurjökull, sem er skriðjökullinn sem liggur ofan við Jökulsárlón, nánast alla leið út í sjó og Jökulsárlón var einfaldlega ekki til.

Fyrir um 120 árum byrjaði jökullinn að bráðna og minnka og fyrir 90 árum var jökullinn búinn að minnka svo mikið að framan við hann var komin djúp lægð í landið þar sem jökulsporðurinnFremsti hluti skriðjökuls er kallaður jökulsporður. hafði áður grafið sig niður í sandinn.

Í lægðina framan við jökulinn tók vatn að safnast fyrir og mynda lón, og var þá Jökulsárlón orðið til! Fyrst var það ósköp lítið en það stækkaði jafnt og þétt og núna er lónið ekki bara gríðarstórt heldur líka dýpsta stöðuvatn landsins. Með hverju ári minnkar svo jökullinn og lónið stækkar um leið. Eftir marga áratugi verður Breiðamerkurjökull búinn að minnka svo mikið að lónið mun liggja líkt og langur og djúpur fjörður inn í fjöllin umhverfis.

Á Jökulsárlóni fljóta stórir og miklir ísjakar sem brotna af jökulsporðinumOft er sagt að jökull „kelfi“ þegar ísjakar brotna af honum út í jökullón eða sjó. og berast um lónið. Þeir geta verið mjög stórir en stærstur hluti hvers ísjaka liggur ofan í vatninu svo við sjáum bara lítinn hluta standa upp úr. Þess vegna þarf að fara mjög varlega þegar siglt er á lóninu og ekki má fara of nálægt jökunum. Þegar gengið er um strönd Jökulsárlóns má oft sjá seli og fugla synda um lónið eða liggja á bökkum þess.

Ísjakar í Jökulsárlóni. Mynd: Snæbjörn Guðmundsson

Selir við Jökulsárlón. Mynd: Helgi Guðmundsson

Fæðuvefur í stöðuvatni