Herðubreið
Herðubreið


Eitt þekktasta fjall hálendisins nefnist Herðubreið í Vatnajökulsþjóðgarði. Hún rís há yfir Ódáðahrauni norður af Vatnajökli og mörgum þykir hún svo fallega löguð og tignarleg að hún er oft kölluð „Drottning íslenskra fjalla“. Hún sést langt að, bæði frá mörgum hálendisslóðum en líka frá sveitabæ sem heitir Möðrudalur á Fjöllum og er heimsóttur af mörgum sem aka á milli Akureyrar og Egilsstaða.
Herðubreið er af ákveðinni gerð fjalla sem við köllum stapa. Stapi er hátt og bratt fjall með klettabeltum og miklum skriðum. Stapar myndast í miklum eldgosum undir þykkum jökli, yfirleitt á ísöldÍsöld er tímabil þegar jöklar hylja stóran hluta Jarðar.. Aðrir þekktir íslenskir stapar eru til dæmis Hlöðufell og Eiríksjökull. Oft er erfitt að klífa stapa vegna þess hve brattir þeir eru og hlíðar þeirra eru lausar í sér. Aðeins ein gönguleið er fær upp á Herðubreið og liggur hún um miklar skriður og þarf að vera með hjálm á höfði til að varast grjóthrun sem getur komið ofar úr fjallinu. Uppi á toppi Herðubreiðar er fallegur eldgígur og útsýnið ofan af henni er ákaflega mikið og vítt.
Allt umhverfis Herðubreið eru gróðurlaus hraun sem runnið hafa í kringum Herðubreið fyrir mörg þúsund árum. Til suðurs er risastórt eldfjall sem heitir Askja í Dyngjufjöllum. Hálendisslóði liggur fram hjá Herðubreið að Öskju og á leiðinni er hægt að stoppa við afar fallegan stað sem nefndur er eftir Herðubreið og heitir Herðubreiðarlindir. Þar er hálendisskáli og tjaldsvæði við grænar og miklar gróðurlindir í miðju gráu hrauninu. Þar sprettur fram fagurblátt og algjörlega tært vatn í mörgum uppsprettum og mynda þær stóra á sem kallast Lindaá en hún rennur út í stórt jökulfljót rétt hjá, hina miklu Jökulsá á Fjöllum. Alls konar plöntur, smádýr og fisktegundir hafast við í lindunum. Þær eru sannkölluð gróðurvin í eyðimörkinni.
Fyrir um 250 árum bjó Fjalla-Eyvindur, einn þekktasti útilegumaðurÚtilegumenn var fólk sem hafði framið glæpi en flúið undan yfirvöldum upp til óbyggða þar sem það bjó. Íslands, einn vetur í Herðubreiðarlindum. Hægt er að ganga frá hálendisskálanum og tjaldsvæðinu örstutta leið að hinum gamla kofa Eyvindar sem er í raun varla meira en ein lítil gjóta með hlöðnum grjótveggjum. Eyvindur sagði sjálfur eftir að hann varð gamall maður að vetrardvölin í Herðubreiðarlindum hefði verið einn erfiðasti vetur lífs síns vegna þess hve kalt var og lítill matur að borða.




Herðubreiðarlindir. Mynd: Wikimedia Pjt56
Eyvindarhola. Mynd: Wikimedia Pjt56
Fæðuvefur í stöðuvatni