Askja

Askja

Askja og Víti. Mynd: Stefanía Eir Vignisdóttir

Í miðju Ódáðahrauni stendur eitt stærsta eldfjall Íslands. Það heitir Askja en umhverfis Öskju er fagur fjallahringur sem heitir Dyngjufjöll. Askja í Dyngjufjöllum er eitt af stóru eldfjöllunum á Íslandi sem gjósa aftur og aftur á nokkurra áratuga fresti. Síðast gaus í Öskju fyrir 60 árum en á undan því gaus sjö sinnum í röð á örfárra ára tímabili fyrir um hundrað árum. Þessi eldgos voru öll frekar lítil og sakleysisleg hraungos. En Askja gýs ekki bara litlum rólegum gosum heldur varð eitt mesta sprengigosÍ sprengigosum rennur oftast ekkert hraun heldur verða miklar og hættulegar sprengingar þegar gýs og aska eða vikur berst yfir landsvæðið umhverfis eldfjallið Íslands þar árið 1875. Þá varð svo kröftugt eldgos að landið í miðri Öskju rifnaði upp og skildi eftir sig gríðarstóra og djúpa lægð eða holu sem dýpkaði og stækkaði í marga áratugi á eftir. Núna fyllir stórt og mjög djúpt stöðuvatn dældina og köllum við vatnið einfaldlega Öskjuvatn. Við hliðina á Öskjuvatni er djúpur og sérstakur sprengigígur sem nefnist Víti. Hann varð til í miklum gufusprengingum í hinu stóra sprengigosi 1875. Vatnið í Víti er volgt svo stundum hefur ferðafólk klifrað niður og baðað sig í gígnum en það getur verið hættulegt því vatnið er djúpt og erfitt að komast upp úr gígnum ef eitthvað gerist.

Í eldgosinu kom upp ákaflega mikið af hvítum blöðróttum og léttum vikriVikur er léttur og hvítur eldfjallasteinn sem kemur upp í stórum sprengigosum. sem þekur allt landið í kringum Öskju. Lengra frá eldfjallinu barst fínleg hvít aska sem lagðist yfir sveitir Austurlands og kaffærði víða tún og graslendi. Vegna eldgossins og kuldaskeiðs á þeim árum lögðust margir bæir uppi á heiðum í eyðiBæir leggjast í eyði þegar allir sem búa á bænum flytja í burtu og enginn flytur í bæinn í staðinn., og margir Íslendingar ákváðu að flytja frá Íslandi til Norður-Ameríku þar sem afkomendur þeirra búa enn í dag.

Í jaðri Dyngjufjalla er hálendisskáli sem gaman er að heimsækja og gista í. Inn af honum er fallegt gil sem ganga má um og heitir það Drekagil. Aðeins lengra frá skálanum er annað gil sem kallast Nautagil. Heiti þess tengist bandarískum geimförum sem komu til Íslands fyrir 60 árum að skoða landslag og jarðfræði Öskju og Ódáðahrauns. Geimfararnir voru að æfa sig fyrir tunglferðir og þótti Ódáðahraun góður staður til þess því yfirborð tunglsins er algjör auðn eins og Ódáðahraun. Geimfararnir gengu meðal annars inn í Nautagil og skoðuðu það vel og hefur það síðan þá verið nefnt eftir þeim, en „Naut-“ í Nautagili er stytting á orði fyrir geimfara, sem kallast „astronaut“ á ensku.

Öskjuvatn. Mynd: Kristján Jónasson

Drekagil. Mynd: Wikimedia Pjt56

Fræðsluganga við Öskju. Mynd: Stefanía Eir Vignisdóttir

Fæðuvefur í stöðuvatni