Steinar

Steinar

Steinar eru alls konar!

Steinar eru alls staðar í kringum okkur. Þeir koma úr fjöllunum, brotna úr klettunum, berast með ánum og skolast á land með öldunum.

Nánast allir þessir steinar voru upphaflega hluti af föstu bergi jarðar, og á Íslandi er mestallt berg upphaflega myndað sem hraun í eldgosum. Síðar hefur hraunið brotnað niður vegna alls konar afla eins og vatns, veðra og jökla.

Stór björg geta molnað í misstóra steina, sand, möl og hnullunga, sem geta svo borist langar leiðir. Sumir molarnir verða sléttir, aðrir kubbóttir eða jafnvel flatir og oddhvassir. Steinar hafa á sér alls konar blæ, eru svartir, gráir eða hvítir og sumir eru litríkir vegna mismunandi innihaldsefna, eins og járns sem gefur rauðan lit eða kopars sem gefur gjarnan grænan.

Stórir stakir kristallar geta verið einstaklega fallegir í alls konar formum og litum, en þeir myndast flestir ofan í jörðinni og gjarnan við mikinn hita. 

Átt þú þér uppáhalds stein? 

Merktu X við steinana sem þú finnur!

Árstíð: allt árið Aldur: 6+ ára

Markmið: Að skoða steina, velta fyrir okkur uppruna þeirra, útliti, lit og áferð. Velta vöngum yfir uppruna hversdagslegra steina í umhverfinu eins og malar og sands, sem hefur jafnvel einhvern tímann verið hraun og komið upp í eldgosum, en svo brotnað niður (eða jafnvel verið brotið í malarnámum!). Að átta sig á að allir steinar eiga sér svipaðan uppruna, úr jörðinni undir fótum okkar.