Setkrukka
Setkrukka

Markmið og tilgangur
Að átta sig á mismunandi stærðum korna í jarðvegi, með því að láta þau falla til botns í vatni og mynda setlög. Auka orðaforða og skilning á ferlum í náttúrunni.
- Árstíð: Allt árið
- Aldur 10+

Markmið og tilgangur
Að átta sig á mismunandi stærðum korna í jarðvegi, með því að láta þau falla til botns í vatni og mynda setlög. Auka orðaforða og skilning á ferlum í náttúrunni.
- Árstíð: Allt árið
- Aldur 10+
Við þurfum
- Stóra glæra krukku með loki (því stærri því betra)
- Jarðveg með misgrófu efni (blöndu af litlum steinum, sandi og mold)
- Litla skóflu
- Vatn

Skófla full af seti sem blanda á við vatn
Framkvæmd
- Sækið jarðveg með misgrófu efni, t.d. úti í moldarbeði eða úti á mel. Passið að velja stað þar sem þið megið taka jarðveginn. Stærstu steinarnir ættu að vera um 1-2 cm, og fínasta efnið moldarkennt.
- Fyllið hálfa krukku af jarðvegi og bætið síðan við vatni sem fyllir næstum því krukkuna.
- Lokið krukkunni og hristið hana vel, svo vatnið verði vel gruggugt.
- Fylgist með setinu falla til botns í krukkunni þegar þið hættið að hrista. Skoðið krukkuna og takið jafnvel myndir af henni eftir: 1 mínútu; 5 mínútur; 1 klst., nokkrar klst. og svo heilan sólarhring.
- Takið eftir því hvernig grófa setið fellur fyrst til botns og svo sífellt fínni setkorn með tímanum. Er vatnið enn þá gruggugt eftir heilan sólarhring? Ef það er ennþá gruggugt, skoðið krukkuna þá áfram næstu daga. Verður vatnið í krukkunni einhvern tímann alveg tært?

Setið er sett í krukkuna

Vatnið hellt ofaní krukkuna og hún hrist vel

Tilbúin setlagakrukka, grófustu kornin hafa sokkið fyrst til botns og sjá má fínt lag efst
Hvað gerist?
Set verður til við mismunandi aðstæður, til dæmis þegar berg brotnar niður við veðrun. Kornin sem myndast við veðrunina eru misstór og eru þau gjarnan flokkuð eftir stærð, meðal annars í hnullunga, möl, sand og leirkorn, sem eru allt dæmi um misstór bergkorn.
Setið getur svo færst til vegna vinda, vatns eða íss og tölum við þá um rof. Þegar set safnast saman til dæmis í stöðuvötnum eða úti í sjó verður það gjarnan lagskipt, þar sem sama stærð bergkorna myndar sérstök lög með grófasta efnið neðst og fínasta efnið efst.
Með því að búa til setkrukku má sjá hvernig mismunandi lög verða til þegar set sest til í vatni. Grófasta efnið er þyngst og sest fyrst niður á botninn. Ofan á það fellur svo sífellt fíngerðara efni, allra fíngerðasta efnið helst lengst í vatninu áður en það sest til. Við þetta verða til misgróf setlög, og eru þau misþykk eftir því hversu mikið af hverri kornastærð var upphaflega í jarðveginum.
Vissir þú?
- Að yfirborð jarðar er að langmestu leiti hulið setlögum.
Orðalisti:
- Jarðvegur – Efsta lag jarðarinnar, úr margs konar lausum jarðefnum eins og mold, möl, sandi og leir. Margar tegundir jarðvegs eru til, svo sem moldarjarðvegur úr mold, sem er blanda bergkorna og gróðurleifa, og sandjarðvegur sem er hreinn laus sandur á yfirborði. Ef yfirborðið er fast berg eins og hraun eða klappir, er ekki talað um jarðveg þar, en hann getur hins vegar safnast fyrir í dældum í berginu.
- Veðrun – Niðurbrot bergs. Veðrun getur gerst við margs konar ferli, en hér á Íslandi verður veðrun sérstaklega þegar berg brotnar í bergkorn eins og hnullunga, möl, sand og leir. Bergkornin eru kölluð set.
- Rof – Ferlið þegar set flyst til í náttúrunni, svo sem með vatni í ám, með vindi eða skriðjöklum.
- Þessi tilraun ýtir undir forvitni og hvetur til rannsóknar og könnunar fyrir börn á miðstigi grunnskóla og gefur nemendum tækifæri til að efla orðaforða sinn á sviði náttúrufræði.
- Þessi tilraun styður enn fremur við hæfniviðmið um verklag, nánar tiltekið vinnubrögð og færni í náttúrugreinum við lok 7. bekkjar.
- Námsbækur sem fjalla um viðfangsefni tilraunarinnar eru t.d. Auðvitað, jörð í alheimi eftir Helga Grímsson.
- Efnisorð: Náttúrugreinar, jarðfræði, setlög, kornastærð, veðrun.

Tilbúin setlagakrukka, grófustu kornin hafa sokkið fyrst til botns og sjá má fínt lag efst

Skófla full af seti sem blanda á við vatn

Setið er sett í krukkuna

Vatnið hellt ofaní krukkuna og hún hrist vel