Sérstaða náttúru Íslands

Sérstaða náttúru Íslands

Mosi og sandur á Fjallabak. Mynd: Nína Aradóttir

Ísland er eldfjallaeyja í miðju Atlantshafi. Fyrir 20–25 þúsund árum var hámark síðasta jökulskeiðs og var Ísland þá nánast algjörlega hulið þykkum ísaldarjökli. Eftir að jöklarnir hurfu fengu lífverur tækifæri til að nema landið en til þess þurftu þær fyrst að komast yfir úthafið frá næstu nágrannalöndum. Fuglar flæktust hingað og báru með sér skordýr, fræ og ber plantna sem fuku einnig hingað í stormum. Fiskar syntu að ströndum landsins og upp í ár og vötn, og margs konar lífverur bárust með rekaviði og ísjökum. Landdýr komust þó ekki hingað nema refurinn sem trítlaði yfir hafís. Eftir að maðurinn nam land hafa margar lífverur flust til landsins með honum. Sumar tegundir hafa borist hingað óvart með skipum, til dæmis rottur og mýs en aðrar hefur maðurinn flutt með sér, eins og kindur, minka og ketti. Landnám er stöðugt í gangi og nýjar lífverur berast hingað á hverju ári. 

Sérstaða Íslands felst því í mikilli fjarlægð frá meginlöndunum, sem veldur einangrun lífríkisins og hefur grundvallaráhrif á hversu fáar tegundir finnast hér. Fáar tegundir þýða að samkeppni milli tegunda er minni en á meginlöndunum. Það gefur tegundunum færi á að aðlaga sig að þeim ólíku vistkerfum sem hér finnast, en fyrir tilstilli eldvirkni eru þau sérstaklega fjölbreytt. Fyrir vikið eru hér á landi einstök dæmi um þróun afbrigða sömu tegundar innan sama vistkerfis („samsvæða tegundamyndun“). Þingvallavatn er eitt besta dæmið þar sem fjögur afbrigði af bleikju er að finna. Þau tilheyra öll sömu tegundinni en nýta mismunandi hluta vatnsins sem búsvæði og nærast á mismunandi fæðu.