Loftslagsbreytingar

Loftslagsbreytingar

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Mynd: Helgi Guðmundsson

Loftslagsbreytingar eru alvarleg ógn sem blasir við náttúrunni og þar með mannkyninu. Þær eru vegna athafna mannsins sem hefur til dæmis brennt kolum, olíu og annars konar lífrænu eldsneyti síðustu aldir og aukið með því magn svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti Jarðar. Aukið magn gróðurhúsalofttegunda og aðrar athafnir mannkyns valda hlýnun jarðar og margs konar öðrum breytingum á loftslagi um allan heim.

Hlýnun Jarðar hefur nú þegar víðtæk áhrif á lífríki um allan heim, ekki aðeins með hækkandi hitastigi, heldur einnig súrnun hafsins sem og hækkandi yfirborði sjávar. Áhrif loftslagsbreytinga hafa í för með sér ótal breytingar á lífsskilyrðum lífvera Jarðar, bæði beinar og óbeinar. Sem dæmi geta breytingar á hitastigi ruglað hvenær árstíðabundnir atburðir á borð við farflug fugla og æxlun dýra eiga sér stað. Þetta getur orðið til þess að æxlun og fæðuframboð fari ekki lengur saman á ákveðnum svæðum svo dæmi sé nefnt.