Lindár
Lindár


Þar sem grunnvatn sprettur upp úr jörðinni eru lindaruppsprettur. Svæði þar sem finna má margar lindir þétt saman eru kölluð lindasvæði, eða stundum einfaldlega „lindir“. Lindasvæði Íslands eru ein þau vatnsmestu í heimi og einkenna einkum ung hraunflæmi gosbeltanna sem ganga gegnum miðju landsins. Stærstu lindasvæði landsins eru við norðanvert Þingvallavatn þar sem grunnvatn streymir neðanjarðar beint út í vatnið. Við norðaustanvert Þingvallavatn er stór ferskvatnslind sem nefnist Vellankatla. Vatnið er um 3°C þar sem það vellur upp með svo miklum straumi að bunga sést á vatnsfletinum og festir þar aldrei ís á vetrum.
Frá lindum og uppsprettum renna lindár, sem eru gjarnan vatnsmiklar strax við upptök. Þær eru kristaltærar með tiltölulega jafnt rennsli yfir árið og sjaldan verða flóð eða vatnavextir í þeim. Hitastig lindavatns er jafnt allt árið óháð lofthita, á bilinu 3-6 °C. Lindár frystir því ekki við upptökin þótt þær leggiSagt er að ár „leggi“ ef það myndast ís á yfirborði þeirra í frosti. stundum neðar í farveginum. Vegna þess hve flóð eru sjaldgæf í lindám eru bakkar þeirra yfirleitt vel grónir og gróðurríkir hólmar setja svip sinn á þær. Á hálendi Íslands má víða finna fallegar gróðurvinjarGróðurvin er gróið svæði í annars eyðilegu umhverfi. þar sem lindár spretta undan svörtum og söndugum hraunum. Af þeim eru Herðubreiðarlindir í Ódáðahrauni einna þekktastar. Lindár eru yfirleitt ríkar af lífi og þykja góðar veiðiár.
Vatnsmesta lindá landsins er Sogið sem rennur úr Þingvallavatni en aðrar þekktar lindár eru til dæmis Brúará, Laxá í Aðaldal og Ytri-Rangá.



