Hornsíli er algengasta fisktegundin í vötnum á Íslandi en það finnst einnig í sjávarlónum og fjörupollum. Hornsíli er mikilvæg fæða stærri fiska og fugla.
Algeng stærð hornsíla er 4–5 cm en þau geta orðið allt að 10 cm að að lengd við ákveðnar aðstæður. Þau lifa í allt að 5 ár. Hornsíli éta ýmis smádýr eins og vatnaflær, mýlirfur og vatnabobba. Hornsíli hafa yfirleitt þrjú horn á bakinu sem þau reisa þegar hætta steðjar að.
Kvendýrið kallast hrygna og karldýrið hængur. Hængurinn sér um hreiðurgerð og lokkar til sín hrygnu sem hann rekur frá hreiðrinu um leið og hún hefur hrygnt. Hængurinn frjóvgar þá hrognin og sinnir seiðunum þar til þau verða sjálfbjarga en það er um viku eftir klak.