Grunnvatn

Grunnvatn

Grunnvatn er vatn sem rennur undir yfirborði jarðar. Við sjáum það ekki en vitum af því undir fótum okkar. Það á uppruna sinn í úrkomu sem fellur upphaflega á yfirborð jarðar áður en það seytlar ofan í jörðina og streymir niður í átt til láglendisins og að lokum til sjávar. Ísland er ákaflega ríkt af grunnvatni miðað við flest önnur lönd. Það er meðal annars vegna þess að Ísland er eyja í miðju Atlantshafi, með óþéttan berggrunn, mikið hálendi og jökla, og hér rignir afar mikið.

Mest er af grunnvatni í yngri hluta Íslands, eldvirka beltinu, þar sem er mikið af hraunum og ungu bergi. Svoleiðis berg er holótt og óþétt í sér (stundum sagt að það sé „gropið“). Það þýðir að úrkoma sem fellur til jarðar getur auðveldlega ferðast um sprungur og holrými í berginu ofan í jörðina. Neðar í landinu streymir grunnvatnið svo oft upp á yfirborð í fallegum og gróðursælum lindum og uppsprettum.

Ferðalag grunnvatnsins um bergið ofan í jörðinni síar vatnið og hreinsar það, og þess vegna er grunnvatn yfirleitt alltaf gott drykkjarvatn. Mestallt neysluvatn á Íslandi er einmitt hreint grunnvatn sem dælt er upp úr grunnum borholum. Áður fyrr var neysluvatn sótt í brunna sem ekki voru alltaf hreinir en á okkar tímum er passað mjög vel upp á að grunnvatn mengist ekki. Þess vegna þarf að umgangast grunnvatn og vatnsból af mikilli varúð.