Fjölbreytni innan tegunda
Fjölbreytni innan tegunda


Fjölbreytni innan tegunda er hluti af líffræðilegri fjölbreytni.
Fjölbreytni innan tegunda vísar til þess að einstaklingar af sömu tegund eru ólíkir. Þetta er auðvelt að sjá fyrir sér þegar við horfum á okkur sjálf, mannfólkið, þar sem hvert okkar hefur sinn svip ólíkan næstu manneskju. Einstaklingar geta bæði verið ólíkir í útliti („svipgerð“) og í erfðumÞað sem erfist frá foreldrum til afkvæma. („arfgerð“). Þessi fjölbreytileiki er mismikill, stundum lítill en stundum svo mikill að heilir hópar einstaklinga innan sömu tegundarinnar eru nógu frábrugðnir öðrum hópum sömu tegundar að talað er um afbrigði innan tegunda.
Mjög gott dæmi um afbrigði sést hjá bleikju í Þingvallavatni. Breytileiki innan tegundarinnar er þar svo mikill að talað um fjögur mismunandi afbrigði bleikju. Sílableikja étur aðallega hornsíli og býr úti í vatninu; dvergbleikja býr ofan í hraunbotni vatnsins og étur þar kuðunga og smáa hryggleysingja; stóra kuðungableikjan lifir fyrir ofan botninn og étur þar kuðunga; hin litla og silfraða murta étur smá krabbadýr og býr í vatnsmassanum úti í vatninu. Öll þessi afbrigði þróuðust frá sömu tegundinni sem kom í Þingvallavatn fyrir um tíu þúsund árum þegar jöklar síðasta jökulskeiðs voru að hverfa.







Afbrigði bleikjunnar í Þingvallavatni eru 4: Sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja.
Fæðuvefur í stöðuvatni