Dragár

Dragár

Dragá er heiti sem notað er yfir tærar ár (bergvatnsár) sem eru þó ólíkar lindám að því leyti að þær hafa engar skýrt afmarkaðar uppsprettur eða lindir heldur safnast vatn í þær smám saman í drögum, dalbotnum eða hlíðum og heiðarvötnum. Dragár eru því samansafn margra lítilla lækja sem „dragast saman“ í stærri ár. 

Dragár einkenna eldri hluta Íslands þar sem berggrunnur er þéttur, öfugt við eldvirka beltið með sín óþéttu hraunlög. Á þessum þéttu eldri svæðum er miklu minna af grunnvatni og úrkoma sem fellur til jarðar vætlar miklu síður niður í berggrunninn heldur rennur grunnt í jörðinni, í efstu lögum í skriðum eða möl. Rennsli og vatnsmagn dragáa sveiflast því eftir veðráttu og árstíma. Í rigningartíð og leysingum verða dragárnar mjög fljótt vatnsmiklar og stundum mórauðar af framburði. Í þurrkatíð er lítið rennsli og vatnið tært. Vegna þess hve hratt dragár geta vaxið grafa þær sig mun frekar niður en lindár og mynda gil eða gljúfur.

Vatnshiti í dragám er óstöðugur. Í hlýindum hitna árnar fljótt og geta þá orðið 10-20 °C heitar. Í kulda og frostum kólna þær mikið og þær leggurSagt er að ár „leggi“ ef það myndast ís á yfirborði þeirra í frosti. hratt. Meðfram dragám eru ógrónar áreyrar en flóð og vatnavextir koma í veg fyrir að gróður festi þar rætur.

Meirihluti íslenskra áa eru flokkaðar sem dragár. Fnjóská er lengsta dragá Íslands en meðal annarra má nefna Norðurá í Borgarfirði, Laxá í Dölum, Mjólká og Hvalá á Vestfjörðum, Eyjafjarðará, Selá í Vopnafirði, og Stóru- og Litlu-Laxár í Hreppum.

Dragár fóstra stóra stofna laxfiska og eru vinsælar veiðiár.