Búsvæðin í vatninu
Búsvæðin í vatninu


Stöðuvötn eru af margs konar toga, stór, lítil, djúp og grunn. Mörg eru ákaflega rík af lífverum en í öðrum er líf af skornum skammti. Hverju stöðuvatni er hægt að skipta í fjóra hluta: vatnsborð, vatnsbol, vatnsbotn og strönd eða fjöru.
Vatnsborðið er yfirborðið á vatninu. Ótrúlegt en satt þá geta lítil smádýr og pöddur gengið á vatnsborðinu án þess að sökkva. Það er vegna þess sem við köllum yfirborðsspennu vatnsins. Efst í vatninu halda sameindir vatnsins mjög fast hver í aðra, þær eru sagðar loða vel saman (við köllum það „samloðunarkrafta“). Út af samloðuninni þá mynda vatnssameindarnar örþunna en sterka himnu eða filmu, nægilega sterka til að halda uppi fisléttum pöddum.
Vatnsbolurinn er það svæði í vatninu sem er opið vatn, frá yfirborði niður að vatnsbotni. Segja má að þetta sé stærsti hluti vatnsins.
Vatnsbotninn er í raun misjafn eftir landsvæðinu og berggrunninum þar sem vatnið liggur. Oftast er botninn grýttur og grunnur næst landi og mjúkur með sandi eða leir á meira dýpi.
Fjaran er þar sem vatnsbakkinn mætir vatninu og er fjaran ýmist grýtt eða mjúk, með sandi eða leir.
Tjarnir eru grunnar og oftast litlar. Skilin milli vatnsbols og botns eru ógreinilegri en í stöðuvötnum og geta þær jafnvel þornað upp í miklum hita.



Fæðuvefur í stöðuvatni