Ágengar tegundir

Ágengar tegundir

Lúpína er dæmi um ágenga framandi tegund í íslenskri náttúru. Mynd: Helgi Guðmundsson

Eitt sem ógnar líffræðilegri fjölbreytni eru ágengar tegundir. Ágengar tegundir hafa komið sér fyrir og vaðið uppi í vistkerfum þar sem þær voru áður óþekktar og myndað ójafnvægi svo aðrar viðkvæmari tegundir í vistkerfunum hafa gefið eftir eða jafnvel horfið alveg af svæðinu.

Oft eru þetta tegundir sem við mannfólkið flytjum á milli landa, þar sem þær berast í ný vistkerfi. Þessar innfluttu tegundir geta ógnað þeim lífverum sem fyrir eru, nærst á þeim og jafnvel flutt með sér framandi sjúkdóma sem lífverurnar sem fyrir eru hafa ekki þróað ónæmi fyrir. Oft vantar líka náttúrulega óvini í nýjum heimkynnum. Þeim getur því fjölgað hratt á kostnað lífvera sem fyrir eru. Talað er um að tegundir séu ágengar þegar þær hafa neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Dæmi um ágengar framandi tegundir sem fluttar hafa verið til Íslands eru lúpína, minkur og stafafura. Einnig hafa ágengar sjávartegundir borist með kjölfestuvatni skipa, til dæmis grjótkrabbi sem lifði ekki áður við strendur Íslands.