Hafið
Hafið


Lífríki sjávar
Hafið er fyrirferðamikið á plánetunni Jörð. Um 71% af yfirborði hennar er þakið vatni og af því vatni er nánast allt saltvatn, eða um 97,5% en bara um 2,5% ferskvatn. Af þessu ferskvatni er þó megnið bundið í ís og snjó eða tæp 68,7%, 30,1% eru grunnvatn og restin 1,2% eru yfirborðsferskvatnskerfi.

Skipting vatns á Jörðinni.
Ferskvatnslífkerfin eru því töluvert umfangsminni en hafið og því mætti ætla að þar væri minna af lífbreytileika. Það er þó ekki svo og hafa rannsóknir sýnt að tegundafjölbreytni í ferskvatni er töluvert meiri en í sjónum þegar kemur að fiskum. Á móti kemur að fjölbreytni í fylkingum er töluvert meiri í hafinu. Fylking er hæsta flokkunareining lífvera innan hvers ríkis á meðan tegund er sú lægsta og nýjar tegundir verða hraðar til en fylkingar. Þær deyja einnig hraðar út. Þar sem ferskvatnslífkerfi eru tiltölulega ung á jarðfræðilegan mælikvarða, sérstaklega miðað við hafið sem er gamalt á sama skala, þá má segja að þau séu nýlega numin af lífverum og þessar lífverur hafa verið ötular að nema nýjar lendur og nýjar tegundir hafa myndast. Þar sem hafið er mjög gamalt lífkerfi þá hafa tegundir þar orðið til og dáið út mun lengur en í ferskvatnskerfunum og afleiðingin er sú að við sjáum marga gamla hópa eða fylkingar með mjög fáum tegundum. Segja má að þessar fylkingar séu minnisvarðar um gamlar tegundaútgeislanirTegundaútgeislun er þegar tegundum fjölgar hratt. Dæmi er þegar spendýrategundum fór að fjölga hratt eftir að risaeðlur dóu út. sem hafa svo dáið út að stórum hluta í gegnum jarðsöguna. Eftir standa tegundir með fáa náskylda ættingja.
Aðlaganir lífvera
Eins og alls staðar endurspegla lífverurnar það umhverfi sem þær búa í. Þannig eru þær lífverur sem lifa í vatnsbolnum oft glærar eins og til dæmis hveljur og ljósátur eða silfraðar eins og síld til að sjást síður því lítið er um felustað á þessum berangurslega stað. Það getur því komið sér vel að vera með stór augu og sjá vel til að veiða á þessu svæði. Undirstaða fæðukeðjunnar hér er hið smáa plöntusvif sem eru örsmáar einfruma plöntur eða þörungar. Plöntusvifið svífur um með hafstraumunum og hefur lítið um það að segja hvert það fer. Það reynir þó að koma í veg fyrir að sökkva því ef það sekkur úr yfirborðslögunum, deyr það þar sem ljós kemst svo skammt ofan í sjóinn eða bara um 200 metra. Til að koma í veg fyrir að sökkva er plöntusvifið gjarnan útbúið með alls kyns öngum sem hægja á fallinu.
Það sama á við um dýrasvifið sem er mestmegnis lítil krabbadýr sem nærast á plöntusvifinu. Það er gjarnan útbúið með hárum og fálmurunum sem hjálpa því við að svífa í uppsjónum. Næst í fæðukeðjunni eru svo fisklirfur fisktegunda sem lifa við botn en eru partur af sviflífkerfinu á lirfustigi og uppsjávarfiskar á borð við loðnu og síld sem lifa allan sinn aldur í uppsjónum. Þar á eftir koma svo stærri fiskar, selir, hvalir og sjófuglar.
Við botninn er lífið ekki alveg jafn glært og heldur meira er af felustöðum. Alls kyns lífverur lifa ofan í og ofan á botninum. Hérna finnum við ýmsa hryggleysingja eins og svampa, kóraldýr og sæfífla, sæsnigla, samlokur og bertálkna, burstaorma, flatorma og þráðorma, marflær, trjónukrabba og sæköngulær, sæbjúgu, krossfiska og ígulker. Hér búa líka margar tegundir fiska, bæði brjóskfiskar eins og skötur, geirnyt og háfar en einnig og ekki hvað síst beinfiskar eins og þorskur og ýsa en líka aðrir lítt þekktari eins og urrari og stóri sogfiskur svo dæmi séu tekin.












Svæði sjávar
Fjaran er það svæði þar sem sjávarbotninn gengur á land og eru flestar lífverurnar af hafrænum toga en færri af landrænum toga. Í fjörum má gjarnan sjá skýra beltaskiptinguBeltaskipting verður vegna þess að dýr og þörungar finnast aðallega á ákveðnum svæðum í fjörunni. þar sem lífverur raðast í belti þvert á fjöruna og eru það helst umhverfisþættir sem stýra því hver efri mörk tegunda eru en samkeppni og afrán neðri mörkum. Þannig má sjá hrúðurkarlabelti efst og dvergaþang sem þolir vel að þorna. Neðar taka svo við breiður af bóluþangi og klóþangi. Neðst í fjörunni og á mörkum neðstu fjörumarka og þar sem grunnsævið tekur við er svo þaraskógur með beltisþara og hrossaþara. Þaraskógurinn er mikilvæg uppeldisstöð fiskungviðis margra tegunda. Frá landi og út í sjó er rísandi seltustigullStigull er orð sem er notað yfir breytingu á milli tveggja punkta. Seltustigull vísar í breytingu á seltu en selta eykst eftir því sem lengra er farið frá landi. og frá hafi og uppá land er stígandi þurrkstigull. Þær hafrænu tegundir sem búa í fjörunni standa frammi fyrir miklum áskorunum á borð við að þorna alveg tvisvar á sólarhring og það hversu vel þær þola að þorna stýrir því hversu hátt þær geta verið í fjörunni ásamt öðrum umhverfisþáttum sem eru á hverjum stað. Landrænu tegundirnar sem búa í fjörunni þurfa aftur á móti að að þola seltu, því meira þeim mun neðar sem þær fara í fjörunni. Aðrir þættir sem eru mikilvægir sem forspárgildi fyrir því hvaða lífverur finnast í fjöru eru beður og brimasemi. Beður er undirlagið eða hreinlega úr hverju fjaran er gerð og brimasemi segir til um hversu mikill ágangur sjávar er í fjörunni. Beður og brimasemi fara því oft saman og eru til dæmis lygnar fjörur oft með fínum sandi og seti á meðan klapparfjörur eru brimasamar.









Grunnsævi, frá neðri fjörumörkum og niður á um 200 m dýpi er sá partur sjávar sem nýtur birtu. Þetta svæði er bara um 1% af yfirborði sjávar. Mestu áhrif sólar eru efst en svo minnkar ljósmagnið hratt eftir því sem neðar dregur. Á grunnsævi er mesta framleiðnin og hér eru flestar fisktegundirnar en það þýðir að vistkerfin eru afkastamikil í framleiðslu á lífmassa. Af landi berst mikið efni og má þar sérstaklega nefna jökulárnar sem bera með sér gríðarlegt magn næringarefna svo sem kísil sem er nauðsynlegur fyrir vöxt kísilþörunga en einnig berst mikið magn af öðrum nauðsynlegum efnum eins og fosfór af landi.
Miðsjór er sá hluti hafsins sem er á 200-1000 m dýpi. Eftir 200 m er ljósmagn orðið lítið þannig að þær lífverur sem hér finnast eru gjarnan rauðar eða svartar á litinn svo þær sjáist síður. Eins eru þær oft með stór augu sem hjálpa þeim að koma auga á bráðina. Dæmi um fiska sem eru algengir hér eru hinar ýmsu karfategundir og laxsíldar.
Djúphafið er sá hluti hafsins sem er neðar en 1000 m og hér er niðamyrkur, sjórinn er kaldur og þrýstingurinn er gífurlegur. Lítið er um fæðu og önnur aðföng og þurfa lífverurnar hérna að vera sérstaklega útsjónasamar í fæðuöflun. Þær eru því oft vel vopnum búnar með beittar og langar tennur og ljósfæri til að lokka að bráð. Ljósið kallast lífljómunLífljómun er það kallað þegar lífverur gefa frá sér ljós. og búa lífverurnar það til með aðstoð sambýlisbaktería sem búa í sérstökum ljósfærum. Reyndar er það svo að margar lífverur á þessu svæði nota ljós einnig til að finna maka og hafa samskipti sín á milli. Lífljómun er reyndar nokkuð algeng meðal lífvera í hafinu og einskorðast alls ekki við djúphafið. Margir kannast við maurildi á haffletinum sem sést oft í myrkri í kjölfara báta en það er lífljómun sem skoruþörungar búa til.

Þversnið af svæðum sjávar
Þvert á þessi svæði ferðast svo stóru dýrinStóru dýrin í hafinu eru þau dýr sem eru 45 kg eða þyngri. Á ensku eru þau kölluð marine megafauna. eins og hvalir, selir og stórir fiskar. Þessi dýr gegna gjarnan mikilvægu hlutverki við að skila næringarefnum upp í efri lög sjávar. Hefur þetta ferli verið nefnd hvalapumpan þegar hvalir eiga í hlut og vegna stærðar sinnar hefur þetta ferli talsvert að segja fyrir hringrás næringarefna.







Þversnið af svæðum sjávar