Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni er hugtak sem tekur til fjölbreytileika alls lífs frá hinu smæsta til hins stærsta. Það nær til fjölbreytileika á meðal tegunda, innan tegunda og vistkerfa. Ýmsar útgáfur eru til af þessu hugtaki, til dæmis líffræðilegur fjölbreytileiki, lífbreytileiki og líffræðileg fjölbreytni sem við notum hér. Öll hugtökin þýða það sama og eru þýðing á enska hugtakinu biodiversity.

Mikilvægi fjölbreyttra vistkerfaHópur af lífverum og umhverfi þeirra á ákveðnu svæði fyrir líffræðilega fjölbreytni kristallast í því að mismunandi vistgerðir fóstra mismunandi samfélög lífvera. Lífverurnar laga sig að umhverfinu. Sem dæmi má nefna að á Íslandi eru að grunni til þrjár gerðir straumavatna. Þetta eru lindár, jökulár og dragár og hefur hver gerð sína eiginleika með tilliti til uppruna, ólífrænna þátta á borð við næringarefni, hitastig, rennslishætti og rafleiðni. Í þessum vatnagerðum eru einnig all ólík samfélög lífvera. Ef aðeins væri um eina gerð af ám að ræða væri töluvert minni fjölbreytileiki lífs til staðar.

Fjölbreytni í tegundum er oftast skilgreind og sett fram sem fjöldi ólíkra tegunda sem er saman kominn á tilteknu, afmörkuðu svæði eða rúmmáli. Ef ein eða fáar tegundir eru ríkjandi á svæði er talað um fábreytni í tegundasamsetningu og þá er um ákveðna einsleitni að ræða. Fjölbreytni innan tegunda þýðir að innan hverrar tegundar sé einnig fjölbreytileiki. Þetta á við um breytileika í arfgerð og svipgerð. Það þýðir að erfðafræðilega (arfgerð) séu einstaklingarnir mismunandi og einnig mögulega í útliti (svipgerð).

Lífverur sem eru afsprengi sömu móðurinnar og hafa orðið til án tilstilli kynæxlunar eru allar eins að gerð og móðurlífveran. Sagt er að þær séu einræktaðar og mjög lítill breytileiki er þeirra á milli.  

Af hverju er fjölbreytni mikilvæg?

Setjum upp smá hugartilraun. Hugsum okkur akur þar sem ein korntegund er ræktuð, til dæmis hveiti. Á því svæði er bara ein vistgerð – hveitiakurinn. Á hveitiakrinum er bara ein tegund af plöntum – hveitiplantan og allar plönturnar á akrinum eru afsprengi einnar móðurplöntu, þannig að þær eru allar af sama afbrigði og þar af leiðandi allar eins, bæði í útliti og arfgerð. Við erum því með mikla einsleitni í þessu vistkerfi. Hugsum okkur nú að veira berist á svæðið, t.d. með farfuglum, og að hún valdi sýkingu sem leggst sérstaklega illa á hveitiafbrigðið. Þar sem allar plönturnar eru erfðafræðilega og lífeðlisfræðilega meira eða minna eins þá geta þær sýkst allar og engin heilbrigð planta orðið eftir með slæmum afleiðingum fyrir menn og mýs. Í þessu ýkta dæmi sjáum við að einsleitnin gerir vistgerðina viðkvæma fyrir áföllum, sem ávallt má búast við á jörðinni.

Annað sem vert er að nefna varðandi mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni er þjónusta vistkerfa sem er hreinlega virkni vistkerfa. Vistkerfisþjónusta er sú þjónusta sem vistkerfi náttúrunnar veitir, afurðir sem mannkyn og allar lífverur nýta sér til lífs og viðurværis á einn eða anna hátt. Hugtakið er mannhverft og búið til utan um þá virkni vistkerfa sem standa mjög nærri manninum og athöfnum hans og koma honum sérstaklega vel. Hér má ekki gleymast að öll vistkerfi jarðar tengjast á einn eða anna hátt og því mikilvægt að öll vistkerfi fái að starfa undir sem náttúrulegustum kringumstæðum og án inngripa mannsins sem rýra fjölbreytnina. Dæmi um vistkerfaþjónustu er binding gróðurs á CO2 á landi og í sjó, temprun mýrlendis á flóðum, hreinsun vatnaplantna á eiturefnum, próteinframleiðsla ýmiskonar í dýraríkinu, t.d. fiskveiðar, hráefni til lyfjaframaleiðslu, hreint loft og hreint vatn svo eitthvað sé nefnt. Svo að vistkerfin geti starfað eðlilega er mikilvægt að ekki sé gengið á líffræðilega fjölbreytni því hún er undirstaða eðlilegrar starfsemi þeirra.

Vistkerfaþjónusta er einnig nátengd öðru mikilvægu hugtaki sem er sjálfbærni. Í sinni víðustu merkingu vísar sjálfbærni til þess að geta viðhaldið ferlum samfellt yfir tíma frá einni kynslóð til þeirra næstu. Ef vistkerfin ná að viðhalda sér eru þau sjálfbær. Sjálfbærnihugtakið er ekki bara notað varðandi umhverfismál heldur nær það einnig til félagslegs réttlætis, heilsu og velferðar, menningarmála og efnahagsmála. Það má því segja að sjálfbærnihugtakið dragi fram mikilvægi þess að athafnir fólks séu hluti af eilífri hringrás og gangi ekki á umhverfið þannig að náttúran nái ekki að virka sem skildi.

Helstu ógnir við líffræðilega fjölbreytni

Tap líffræðilegrar fjölbreytni á alþjóðavísu lítur út fyrir að hafa gerst mun hraðar og greinilegar á síðustu 100 árum en áður á tímum mannkyns á jörðu. Í lok árs 2022 eru yfir 41 þúsund tegundir í hættu á útrýmingu af 147 þúsund þekktum tegundum á rauðum lista Alþjóða-náttúruverndarsamtakanna (e. International Union for Conservation of Nature, IUCN) um tegundir í útrýmingarhættu og hefur fjöldi þeirra þrefaldast á síðustu tuttugu árum. Þessi hraði á útdauða tegunda hefur verið nefndur sjötta útdauðahrinan en í jarðsögunni hafa orðið fimm útdauðahrinur eða tímabil þar sem stór hluti lífríkisins hefur þurrkast út á skömmum tíma. Með þessu tapi líffræðilegrar fjölbreytni tapast einnig virkni vistkerfa.

Helstu ógnir við líffræðilega fjölbreytni er búsvæðaeyðing, mengun, ágengar tegundir, ofnýting stofna og vistkerfa og síðast en ekki síst loftslagsbreytingar.

Fimm helstu ógnir við líffræðilega fjölbreytni.

Búsvæðaeyðing

Breytingar á búsvæðum á landi og í sjó hafa mikil áhrif á lífverur sem búa á viðkomandi svæði. Framræsing mýra, bygging mannvirkja eins og til dæmis brýr, vegir, virkjanir og gerð uppistöðulóna svo eitthvað sé nefnt veldur búsvæðaeyðingu. Einnig má nefna að ræktun sértækra tegunda og skógarhögg veldur búsvæðaeyðingu fyrir fjölda lífvera. Á Íslandi var búsvæði fuglsins keldusvíns eytt með framræslu mýrlendis en þau verptu í mýrum áður fyrr.

Mengun

Mengun getur verið af margvíslegum toga, svo sem loftmengun, plastmengun, ljósmengun, hljóðmengun og efnamengun svo eitthvað sé nefnt. Mengun getur haft bæði óbein og bein áhrif á afkomu lífvera. Bein áhrif eru til dæmis þegar olía fer út í umhverfið en þá verður umhverfið ónýtanlegt fyrir lífverur sem þar annars búa. Óbein áhrif eru þegar mengun hefur áhrif á fæðuframboð lífvera eða æxlunargetu þeirra.

Framandi, ágengar tegundir

Þegar tegundir eru fluttar út fyrir sín náttúrulega heimkynni þá eru oft ekki til staðar náttúrulegir óvinir hennar á nýja staðnum og því valda framandi tegundir oft usla á nýja staðnum, bæði vegna þess að þeim fjölgar hraðar og þær dreifast víðar en í sínum náttúrulegu heimkynnum og svo vegna þess að lífríkið sem fyrir er ekki viðbúið nýju tegundunum, hefur ekki uppi varnir og er rutt úr vegi. Þá geta innfluttar tegundir flutt með sér framandi sjúkdóma sem lífverur á nýja staðnum hafa ekki þróað ónæmi fyrir. Dæmi um ágengar framandi tegundir sem fluttar hafa verið til Íslands er lúpína og minkur. Vísbendingar eru um að stafafura geti verið ágeng hér á landi en víða erlendis hefur hún verði flokkuð sem slík. Innflutningur tegunda á nýja staði getur einnig átt sér stað með skipum, einkum í kjölfestuvatni þeirra og hafa margar sjávarlífverur flust þannig á milli svæða.

Ofnýting

Ofnýting  hefur slæmar afleiðingar fyrir líffræðilega fjölbreytni en í ofnýtingu felst að nýting sé meiri en sem nemur endurnýjunarhraða viðkomandi náttúruauðlindar. Ef nýtingin felst í fiskveiðum þá þýðir ofnýting að stofninn sem verið er að veiða úr nær ekki að endurnýja sig nægilega hratt og því er sagt að við séum að ganga á stofninn og hann minnkar í kjölfarið. Í verstu dæmunum þá deyja lífverurnar út sem verið er að nýta. Gott dæmi um það er geirfuglinn en honum var útrýmt á 19. öld en síðustu fuglarnir í heiminum voru drepnir hér við Íslandsstrendur 3. Júní 1844. Annað dæmi nær okkur í tíma er ofveiði á þorski fram til 1990 á miðunum við Georges Bank við Nýfundnaland. Vegna ofveiði hrundi stofninn og hefur ekki borði barr sitt síðan.

Síðasti geirfuglinn. Mynd/Erling Ólafsson

Loftslagsbreytingar

Talið er að hlýnun jarðar muni hafa víðtæk áhrif á lífríki um allan heim með hækkandi hitastigi, súrnunar sjávar sem og hækkandi yfirborði sjávar. Áhrif loftslagsbreytinga geta verið óbein. Breytingar á hitastigi geta ruglað hvenær árstíðabundnir atburðir á borð við far og æxlun eiga sér stað. Þetta getur orðið til þess að æxlun og fæðuframboð fari ekki saman lengur í ákveðnum búsvæðum svo dæmi sé nefnt.

https://www.ni.is/grodur/vistgerdir

https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_54.pdf

https://ust.is/nattura/liffraedilegur-fjolbreytileiki/nattura-nordursins/thjonusta-vistkerfa/

https://ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Liffraedileg-fjolbreytni/Upplysingablod/Vistkerfi.pdf

Samráðsvettvangur um líffræðilega fjölbreytni: www.biodice.is

Grænbók um líffræðilega fjölbreytni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3293

Boyd, J., & Banzhaf, S. (2007). What are ecosystem services? The need for standardized environmental accounting units. Ecological economics63(2-3), 616-626. https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0921800907000341?casa_token=DJwZL_pC1dEAAAAA:-DcIrpM1iKMb5zUnf7fOZHaD-lnSFJ4NRPFUSujsZ7XTjkKWa-QMzaIlbHbjC-TvEifzepMEKgM

Dobbs, David. The Great Gulf: Fishermen, Scientists, and the Struggle to Revive the World’s Greatest Fishery. Washington, DC: Island Press, 2000.

Kurlansky, Mark. Cod: Ævisaga þorsksins. Fiskurinn sem breytti heiminum. Walker and Company, 1997. Íslensk þýðing: Ólafur Hannibalsson.