Fjallaferðir

Fjallaferðir

Við Nýjadal. Mynd: Snæbjörn Guðmundsson

Fyrr á öldum fór fólk sjaldan á fjöll eða upp á hálendið nema í mjög mikilvægum erindagjörðum. Fjalllendi Íslands er erfitt yfirferðar og uppi á hálendinu eru klettar, jökulár, hraun og villugjarnar hálendisauðnirAuðnir eru stór eyðileg svæði þar sem enginn býr.. Stundum gerir þar vond veður með litlum sem engum fyrirvara og ferðafólk fyrri alda var illa búið fyrir kulda og vosbúð. Fólk trúði því jafnvel að hættulegar verur – tröll, ófreskjur og útilegumennÚtilegumenn var fólk sem hafði framið glæpi en flúið undan yfirvöldum upp til óbyggða þar sem það bjó. lifðu í fjöllunum.

Allt frá því landnámsmennirnir námu Ísland þekkti fólkið í landinu þó leiðir um fjallaskörð, heiðar og hálendi því stundum þurfti að ferðast langar leiðir milli dala eða jafnvel fjarlægra landshluta. Þá var oft styttra að fara um fjöllin og óbyggt hálendið heldur en meðfram ströndinni. Þessar leiðir voru þó hættulegar og fólk villtist stundum af leið, týndist og varð jafnvel úti„Að verða úti“ þýðir að deyja úti í náttúrunni, oft í vondu veðri eða vegna kulda..

Í óbyggðum Vatnajökulsþjóðgarðs lágu til forna margar hálendisleiðir því þar voru stystu leiðir milli Norðausturlands og Suðausturlands. Stundum fór fólk jafnvel þvert yfir Vatnajökul ef þess þurfti. Síðar meir gleymdust margar þessara fornu leiða en þær mikilvægustu lifðu þó í huga fólks því eldri kynslóðir sögðu þeim yngri til hvernig rata átti um hálendið.

Í dag fer fólk hins vegar aðallega upp á hálendið til að njóta þess, komast í ósnortna náttúru og finna fyrir krafti víðernanna. Mörgum finnst náttúran toga til sín á fjöllum, jafnvel á einhvern óútskýranlegan hátt. Fyrsta bílferðin yfir Sprengisand á milli Hofsjökuls og Vatnajökuls var farin fyrir næstum því hundrað árum. Í þá daga höfðu fjallaferðir ævintýrablæ yfir sér því margir hlutar hálendisins voru lítið þekktir og rannsakaðir. Allar götur síðan hefur fólk flykkst upp á öræfin„Öræfi“ er annað orð yfir óbyggðir í alls konar fjallaferðir – á jeppum, gangandi, ríðandi á hestum eða jafnvel á gönguskíðum um hávetur þegar snjór liggur yfir öllu. Í hálendisferðum gistir fólk í hálendisskálum eða tjöldum og oft er talað um öræfakyrrð sem leggst yfir hálendið þegar komið er í náttstað og ekkert heyrist nema lágur niður náttúrunnar.

Eitt helsta aðdráttarafl Vatnajökulsþjóðgarðs er einmitt hálendi hans, bæði umhverfis Vatnajökul sjálfan sem og í auðnunum vestur og norður af jöklinum. Í þjóðgarðinum eru margir fjallaskálar með tjaldsvæðum þar sem ferðafólk gistir á milli þess sem það fer um illfæra hálendisslóða og jafnvel yfir óbrúaðar ár. Á fjöllum fáum við tækifæri til að takast á við óbeislaða náttúruna á allt annan hátt en í byggðunum niðri á láglendi. Segja má að hálendið sé einn mesti gimsteinn Íslands, svæði sem við þurfum að passa vel upp á og fara varlega með svo við og afkomendur okkar getum notið þess um alla framtíð.