Þjóðsögur og landslag
Þjóðsögur og landslag


Með orðinu landslag er oftast átt við það sem við sjáum með berum augum – til dæmis fjöll og dali, læki og ár, og svo auðvitað gróðurinn og lífríkið allt í kring. Landslag er þannig svolítið eins og mynd eða málverk sem við getum teiknað af landinu. En þegar við tölum saman um landið í kringum okkur segjum við hvort öðru ekki bara frá því sem við sjáum heldur líka frá alls konar ósýnilegum fyrirbærum sem við þekkjum úr bókum og aðrir hafa sagt okkur frá. Fjöllin, árnar og dalirnir hafa til dæmis flest nöfn sem við köllum örnefni. Sums staðar liggja ógreinilegir hálendisslóðar um auðnir og torfærur sem forfeður okkar þekktu og sögðu afkomendum sínum og öðrum frá svo hægt væri að komast milli fjarlægra staða. Við segjum að þessar fornu þjóðleiðir hafi lifað með þjóðinni því slóðirnar voru ekki vegir heldur varð fólk að vita hvert átti að fara með því að þekkja fjöllin, árnar og annað í landinu. Í vondum veðrum og þoku varð stundum erfitt að rata þessar leiðir og fólk gat villst af leið. Í kringum bæði þessa sýnilegu og ósýnilegu hluta landslagsins spunnust með tímanum alls konar sögur og munnmæliMunnmæli eru þjóðsögur og óljósar frásagnir af atburðum sem gerðust fyrir löngu. sem fólk sagði hvort öðru og gáfu landinu sérstakt líf.
Þetta á við alla hluta landsins og þannig er Vatnajökulsþjóðgarður ekki bara fullur af fallegri og sérstæðri náttúru heldur finnast þar alls konar minjar og sögur um fólk sem bjó þar áður, ferðaðist um og sagði frá landinu, bæði sannar frásagnir en líka furðulegar þjóðsögur. Þjóðsögurnar segja margar af tröllum og álfum, af útilegumönnum sem bjuggu lengst uppi á hálendinu, og jafnvel draugum og hættulegum verum sem sátu um ferðafólk. Þær eru alls konar, bæði fyndnar og skemmtilegar, en líka ógnverkjandi og sorglegar. Sumar hafa spunnist um fólk sem var til í alvörunni eins og sögur af útilegumönnunum Fjalla-Eyvindi og HölluFjalla-Eyvindur og Halla voru útilegumenn á 18. öld sem voru sökuð um þjófnað en flúðu undan yfirvöldum og bjuggu víða um land í útlegð, meðal annars á Hveravöllum, í Þjórsárverum og í Drangavík á Ströndum..
Flestar eru hins vegar líklegast ævintýri og hreinn uppspuni sem varð til með tímanum, kannski til að útskýra forn örnefni eða náttúrufyrirbæri sem íbúar landsins skildu ekki eins og eldgos og jökulhlaup. Gott dæmi er til dæmis þjóðsaga af manni sem hét Vestfjarða-Grímur og er sagður hafa farið og búið með tröllskessu við falleg gróðursæl vötn uppi á hálendinu sem kennd voru við hann og nefnd Grímsvötn. Í dag vitum við að sagan er hreinræktuð þjóðsaga því Grímsvötn eru eldstöð lengst uppi á Vatnajökli og þar hefur aldrei verið gróður eða mannabústaðir. Ef til vill varð þjóðsagan til í kringum örnefnið Grímsvötn til að útskýra nafngift þeirra? Þannig hafa þjóðsögur orðið til í landinu allt í kringum okkur og Vatnajökulsþjóðgarður er ríkur af svoleiðis sögum og frásögnum.

