Fossar

Fossar

Dettifoss. Mynd: Helgi Guðmundsson

Ísland er ríkt af fossum. Það er einkum vegna þess að í miðju landsins er mikið hálendi með stóra jökla, og utan jöklanna eru mikil og há fjöll og landslagið klettótt. En það er líka vegna þess að Ísland er eyja úti í miðju Atlantshafi og hér rignir og snjóar mjög mikið. Nánast alls staðar finnst vatn sem flæðir um landið og fellur fram af klettum í stórum og smáum fljótum, ám og lækjum.

Íslenskir fossar hafa alls konar form. Sumir eru litlar sprænur, aðrir eru í vatnsmiklum jökulfljótum. Sumir falla fram af háum klettum sem eru forn hraunlögHraunlag er … ., en aðrir renna fínlega niður mjúk setlögSetlag er fornt jarðlag úr efni sem var upphaflega jarðvegur, sandur eða annað … .. Þannig skiptir bæði gerð ánna og undirlagið máli um hvernig fossarnir líta út.

Í Vatnajökulsþjóðgarði eru margir af þekktustu fossum Íslands. Þeir eru afar fjölbreyttir og gefa þjóðgarðinum fallegt og tignarlegt yfirbragð. Hæstu fossar landsins eru utan í Vatnajökli sjálfum, þar sem litlar ár og lækir renna nánast beint undan jöklinum fram af háum klettabrúnum, til dæmis við skriðjökul sem heitir Morsárjökul rétt hjá Skaftafelli. Í Skaftafelli er líka Svartifoss, tær og fallegur foss sem fellur fram af klettabrún umkringdur dökku stuðlabergi.

Í hinum stóru og kraftmiklu jökulfljótum þjóðgarðsins eru öðruvísi fossar, miklir og kröftugir, gruggugir af jökulaur. Dettifoss er frægastur þeirra. Hann er í Jökulsá á Fjöllum efst í Jökulsárgljúfrum, en í gljúfrunum eru margir fleiri þekktir fossar. Í öðru jökulfljóti sem heitir Skjálfandafljót er fossinn Gjallandi, við fáfarinn fjallveg lengst uppi á hálendi.

Íslenskir fossar eru svo margir, fjölbreyttir og einstakir að þeir eru verndaðir sérstaklega í lögum um náttúruna. Það þýðir að það verður að passa vel upp á þá og það má ekki reisa byggingar beint fyrir framan fossa sem fela þá þannig að þeir sjáist ekki þegar farið er fram hjá þeim.