Þjóðgarðar

Þjóðgarðar

Kverkfjöll. Mynd: Kristján Jónasson

Á Íslandi eru þrír þjóðgarðar. En hvað þýðir orðið þjóðgarður og hvers konar garður er það?

Við erum mörg með garða í kringum húsin okkar og í þeim er oft gras, blómabeð, tré og runnar. Við njótum þess að dvelja í görðunum okkar, ræktum þá og gerum eins fallega og við getum. Að dvelja í görðum í borgum og bæjum er hluti af því að njóta náttúrunnar, þótt við höfum búið til garðana sjálf og þeir séu inni á milli húsa og gatna. Þjóðgarðar eru hins vegar allt öðruvísi, því þar er náttúran oftast óspillt. Það þýðir að við mannfólkið höfum lítið snert á henni eða breytt og í flestum tilfellum búa engir í þjóðgörðum. Þeir eru ekki manngerðir líkt og garðarnir eru oft heima hjá okkur.

Þjóðgarðar eru oft mjög stórir og þar finnum við fallega náttúru, fjöll og dali, jökla, vötn og ár, hraun, gróður og alls konar lífverur en líka fornminjar, og önnur ummerki um fólk sem einhvern tíma bjó þar eða ferðaðist um.

Þjóðgarðar eru eign okkar allra. Það mega öll heimsækja þá og njóta þeirrar dásamlegu náttúru og útiveru sem þeir bjóða upp á en við verðum um leið að umgangast þá af virðingu og ganga vel um. Þetta gerum við til að varðveita náttúruna og passa upp á hana. Við þurfum að gæta þess að allar lífverurnar sem búa í þjóðgörðunum hafi það gott og geti lifað og dafnað án truflunar. Við viljum líka að kynslóðirnar sem koma á eftir okkur geti notið þjóðgarðanna eins og við. Þessi svæði eru því friðlýst, sem þýðir einfaldlega að við ætlum að vernda þau og leyfa þeim að vera í friði frá breytingum af okkar völdum.

Þjóðgarðarnir þrír á Íslandi heita Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, og Snæfellsjökulsþjóðgarður. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er elstur þeirra en hann var stofnaður á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930. Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Auk þjóðgarðanna eru líka mörg önnur svæði víða um landið friðlýst vegna einstakrar náttúru og fornminja þótt þau séu ekki formlegir þjóðgarðar.