Jökulár

Jökulár

Jökulár eiga upptök sín í jöklum, og oft er sagt að þær komi „undan jöklum“. Þær myndast vegna þess að jökulís og snjór á jökli bráðnar, t.d. þegar hlýtt er í veðri og sólin skín glatt. Þá er gjarnan sagt að jökul og snjó „leysi“ og ef „leysingar“Leysingar eru þegar snjór og ís bráðnar. Oft er talað um vorleysingar þegar snjór vetrarins bráðnar og ár flæða skyndilega yfir bakka sína. eru miklar verða jökulárnar vatnsmiklar. Bræðsluvatnið rennur þá undir jöklinum að sporði hans eða jaðri þaðan sem það rennur áfram frá jöklinum í einum eða jafnvel fleiri farvegum.

Rennsli í jökulám er háð lofthita og er því mismikið milli árstíða og ára, rennslið er lítið á veturna en mikið á sumrin. Oft er líka munur á nóttu þegar árnar eru minni og degi þegar sólin kemur upp og bræðir jökulísinn. Í kuldatíð bráðnar lítið í jöklum og eru jökulárnar þá yfirleitt vatnslitlar. Þegar hlýtt er í veðri geta verið miklar leysingar og jökulárnar þá vatnsmiklar, sérstaklega í sumarrigningum. Eitt einkenni jökuláa eru því miklar sveiflur í rennsli, bæði dægursveiflur og árstíðasveiflur.

Jökulár eru vatnsmestar í jökulhlaupum, þegar gríðarmikið magn af jökulís bráðnar jafnt og þétt vegna jarðhita eða skyndilega vegna eldgosa undir jökli. Þá geta jökulár margfaldast að stærð í einu vetfangi. Gott dæmi um þetta eru Skaftárhlaup og Skeiðarárhlaup.

Annað einkenni jökuláa er litur þeirra en þær eru oftast brúnleitar eða jafnvel mórauðar. Það er framburður ánna sem gefur þeim litinn en árnar bera með sér býsn mikil af sandi og leir sem skriðjöklar hafa skafið úr botni sínum.  

Rysjótt vatnsrennsli, stríður straumur og jökulaur gerir það að verkum að ekki þrífst mikið líf í jökulám miðað við tærari bergvatnsár en mikill munur getur þó verið á milli mismunandi jökuláa. Í jökulám lifa helst kísilþörungar og rykmýslirfur. Jökulár eru þó gríðarlega mikilvægar lífríkinu þar sem þær bera mikið magn af næringarefnum til sjávar og eru því mikil innspýting fyrir vistkerfin þar. Sama á við um vistkerfi á landi til dæmis flæðimýrar.

Mestu fljót Íslands koma flest upphaflega undan jöklum sem jökulár, þótt neðar bætist yfirleitt mikið bergvatnBergvatn er tært vatn frá uppsprettum. í þær. Má þar nefna Þjórsá, Hvítá í Árnessýslu, Jökulsá á Fjöllum, Blöndu og Héraðsvötn.