Jarðhiti

Jarðhiti

Óvíða er meiri jarðhita að finna en á Íslandi. Jarðhitavatn er hluti af grunnvatninu sem kemst í snertingu við heitt berg ofan í jörðinni og hitnar. Jarðhitavatn á því uppruna sinn í úrkomu á sama hátt og kalt grunnvatn. Hiti í jarðlögum vex með dýpi og á eldvirka beltinu, þar sem finna má eldfjöll og hraun, kemst grunnvatnið víða í návígi við heitt berg ofan í jörðinni. Þegar vatnið hitnar léttist það (verður eðlisléttara) og stígur upp til yfirborðs þar sem það sprettur fram í hverum og laugum. Í jarðhitavatni er mikið af uppleystum efnum eins og kísli, kalki og brennisteini.

Við notum heita vatnið til húshitunar, fyrir sundlaugar og böð, en einnig til snjóbræðslu undir gangstéttum, í fiskeldi og til að hita upp gróðurhús. Gufa frá jarðhitasvæðum er nýtt til að framleiða rafmagn.

Á jarðhitasvæðum má finna alls konar hveri og laugar. Þar sem jarðhitinn er mestur í nágrenni stórra eldfjalla og eldstöðva finnast bullandi gráir leirhverir og öskrandi gufuhverir, og litadýrðin í kringum þá getur verið stórbrotin. Á kaldari svæðum, utan eldvirku svæðanna, eru hins vegar aðallega vatnshverir og laugar. Sums staðar eru jafnvel goshverir eins og á Geysissvæðinu þar sem finna má Strokk, virkasta goshver Íslands.