Fjölbreytni tegunda er hluti af líffræðilegri fjölbreytni.
Ef við horfum á Jörðina í heild sinni er lífið afar fjölbreytt og lífverurnar taka á sig ótal myndir og form; allt frá því að vera örsmáar bakteríur, upp í risahvali á borð við steypireyði.
Þegar talað er um fjölbreytni tegunda er átt við fjölda ólíkra tegunda sem lifa á afmörkuðu svæði. Mikilvægt er að vistkerfi fái að þróast á forsendum náttúrunnar.
Ísland er ung eldfjallaeyja og stutt er síðan landið var hulið ísaldarjökli. Fyrir vikið finnast hér fáar tegundir í samanburði við meginlöndin sitthvoru megin við okkur. Þær tegundir sem hér finnast hafa haft stuttan tíma til að nema land.