Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni

Mólendi. Mynd: Snorri Baldursson

Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er notað til að lýsa fjölbreytileika lífsins í allri sinni dýrð, hvaða nafni sem lífverur nefnast og hvaða formi sem þær eru á. Í gegnum jarðsöguna hefur lífið stöðugt þróast og breyst, nýjar tegundir orðið til og aðrar dáið út. Fjölbreytileiki lífsins, hin líffræðilega fjölbreytni, er nauðsynlegur því með honum geta lífverur brugðist við nýjum aðstæðum í heimkynnum sínum, fjölgað sér, þróast og dafnað.

Líffræðileg fjölbreytni er nauðsynlegur grundvallarþáttur lífríkisins, hvort sem litið er á smá eða stór vistkerfi innan þess. Innan hvers vistkerfis býr fjölbreyttur hópur lífvera sem hver myndar sinn hlekk í fæðukeðju og samskiptaneti vistkerfisins og viðheldur þannig heilbrigði þess. Ef ójafnvægi kemst á þennan flókna vef vistkerfisins, til dæmis ef ein tegund lífvera hverfur úr vistkerfinu, getur það valdið hruni eða ofvexti hjá öðrum lífverum í kerfinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Líffræðileg fjölbreytni vistkerfis er því mikilvæg svo jafnvægi haldist innan þess og allar tegundir dafni og einstaklingum vistkerfisins líði vel.

Líffræðileg fjölbreytni nær til fjölbreytni í vistkerfum, fjölbreytni í tegundum og síðast en ekki síst til fjölbreytni einstaklinga af sömu tegund. Til þess að vistkerfi, tegundir og einstaklingar innan tegundanna geti brugðist við breytingum þá er nauðsynlegt að passa fjölbreytnina á öllum þessum stigum.