Árfætlur og vatnaflær
Árfætlur og vatnaflær


Árfætlur eru lítil krabbadýr sem lifa í ferskvatni, og eru þær stundum einnig nefndar krabbaflær. Árfætluheitið hafa þær fengið vegna þess að þær eru með sundfætur sem minna á árar. Árfætlurnar eru agnarsmáar eða 1–2 mm að lengd. Þær éta svifþörunga og eru oftast rauðleitar en finnast þó gulleitar og jafnvel glærar. Þær eru aðeins með eitt auga og langa fálmara sem þær nota til að skynja umhverfi sitt. Þær sjást með berum augum ef vel er rýnt í vatnið og stundum má sjá fullvaxta kvendýr með eggjasekki sem þær bera með sér. Árfætlur eru mikilvægur hlekkur í fæðukeðju stöðuvatna þar sem þær eru fæða fiska og fugla. Stundum hafa þær verið notaðar sem mælikvarði á heilbrigði vistkerfisins.
Vatnaflær eru lítil krabbadýr sem eru algeng í vötnum og tjörnum. Þær lifa á þörungum og eru mikilvæg fæða fiska og fugla. Sumar vatnaflær lifa út í miðjum vatnsbolnum en aðrar á botninum. Líkami vatnaflóa er umlukinn skildi. Á höfðinu er svart auga og tveir fálmarar. Vatnaflær hafa 4–6 fótapör sem hreyfast í sífellu (um 200–300 sinnum á mínútu) og búa þannig til stöðugan næringarstraum til munnsins.


Fæðuvefur í stöðuvatni