Bleikja

Bleikja

Bleikja í Þingvallavatni. Mynd: Helgi Guðmundsson

Bleikja er mjög algeng fisktegund í vötnum  á Íslandi. Hún er laxfiskur og þrífst vel í köldu vatni, enda er hún hánorræn tegund. 

Bleikja er mjög breytileg í útliti og lifnaðarháttum því hún lagar sig vel að  umhverfi sínu. Oft má finna mörg bleikjuafbrigði í sama vatni. Bleikjan étur lítil krabbadýr í svifi, vatnabobba og mýlirfur af botni. 

Í Þingvallavatni má finna fjögur afbrigði bleikju sem eru ólík í útliti og lifa á mismunandi stöðum í vatninu. Þessi fjögur afbrigði eru svo ólík í útliti og háttum að þau minna á fjórar ólíkar tegundir. Þetta er dæmi um fjölbreytni innan tegunda.

Murta er frekar lítil og verður sjaldan lengri en 22 cm. Hún er silfruð, grannvaxinn og snör í snúningum. Murtan er jafnmynnt en það þýðir að efri og neðri kjálkar hennar eru jafnlangir og hún étur því fæðu sem er beint fyrir framan hana svo sem smákrabbadýr sem eru á sundi fjarri landi. Murtan hrygnir í lok september – byrjun október.

Sílableikja étur helst hornsíli og eltir hún þau um allt vatnið eða niður á allt að 20 metra dýpi. Hún verður allt að 45 cm að lengd og er ljósleit og rennileg. Sílableikjan líkt og murtan er jafnmynnt og étur því fæðu sem er beint fyrir framan hana. Hún hrygnir í október – nóvember.

Kuðungableikja er stærsta bleikjuafbrigðið í Þingvallavatni en hún getur orðið allt að 60 cm löng. Kuðungableikjan býr við botninn, er undirmynnt sem þýðir að efri kjálkinn er lengri en sá neðri og auðveldar það henni að éta vatnabobba af botninum. Vatnabobbarnir eru kuðungasniglar og aðalfæða kuðungableikjunnar sem hún dregur nafn sitt af. Kuðungableikjan hrygnir í júlí – ágúst en á hrygningartímanum verður hún gulrauð á maganum.

Dvergbleikja er lítið bleikjuafbrigði sem finnst þó víðar en í Þingvallavatni. Dvergbleikjan er afar smágerð og er oftast innan við 12 cm að lengd. Hún er undirmynnt líkt og kuðungableikjan og étur líka vatnabobba og önnur smádýr. Hún er snör í snúningum og smýgur ofan í glufur á botninum. Hrygningartími dvergbleikjunnar er frá ágúst allt fram í desember.

Bleikja. Mynd: Cécile Chauvat

Afbrigði bleikjunnar í Þingvallavatni eru 4: Sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja.

Bleikja. Mynd: Cecile  Chauvat

Afbrigði bleikjunnar í Þingvallavatni eru 4: Sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja.

Fæðuvefur í stöðuvatni