Rykmý

Rykmý

Stóra toppfluga. Mynd: Wim van Egmond

Rykmý er algengasta vatnaskordýr á Íslandi. Yfir 80 tegundir af rykmýi finnast á Íslandi. Stærsta rykmýstegundin er stóra toppfluga, um 1 cm að lengd.

Rykmý hefur ævi sína sem egg í vatni. Fullorðnar kvenflugur verpa eggjum sínum á yfirborði vatns þar sem eggin sökkva niður á botn og klekjast þar út sem lirfur. Lirfa rykmýsins lifir á þörungum og finnst alls staðar þar sem vatn er að finna, í stöðuvötnum, ám, mýrlendi og rökum jarðvegi. Rykmýið lifir stærstan hluta ævinnar sem lirfa, sumar tegundir allt upp í tvö ár áður en þær púpa sig og breytast í fullvaxnar flugur sem fljúga upp úr vatninu. Eftir að þær koma úr vatninu lifa þær aðeins í nokkra daga til að para sig og verpa nýjum eggjum. Fullorðnar rykmýsflugur éta ekkert á sínu örstutta æviskeiði í lofti.

Fjöldi rykmýslirfa á botni áa, lækja og stöðuvatna er gífurlegur. Lirfurnar eru afar mikilvæg fæða fyrir fiska og fugla og þýðingarmikill hluti af vistkerfinu. Miklir strókar af rykmýi eru áberandi á hlýjum góðviðrisdögum. Karlflugurnar mynda strókana yfir kennileitum í landslagi og kvenflugurnar fljúga inn í þá og parast við karlana