Vatnið
Vatnið
Náttúruauðlindin vatn
Vatn er öllum lífverum lífsnauðsynlegt, þar með talið manninum. Meðalmaður þarf að innbyrða um 1,5-2 lítra af vatni á dag til að halda líkamsstarfseminni gangandi, annars fer illa. Vatn er um 60% af líkamsþunga okkar. Á Íslandi nýtum við bæði náttúrulegt kalt vatn og heitt. Kalda neysluvatnið þurfum við ekki að hreinsa, svo hreint er það frá náttúrunnar hendi, ólíkt því sem á við um stærstan hluta jarðarbúa. Jarðhitann og heita gufu nýtum við til að hita upp húsin okkar, fara í heita sturtu og rækta grænmeti í upphituðum gróðurhúsum. Við sturtum niður í klósettinu, sjóðum egg, pasta og hrísgrjón og framleiðum megnið af því rafmagni sem við notum á Íslandi með fallvatnsorku í straumvötnum landsins. Við notum líka kraftinn í heitri gufu í jörðinni til að framleiða rafmagn.
Skipting vatns á Jörðinni.
Kalt vatn
Ísland er mjög ríkt af grunnvatni. Grunnvatn er það vatn sem er neðanjarðar í bergi og jarðlögum og notum við það sem drykkjarvatn meðal annars. Mest er af grunnvatni í yngri hluta Íslands, eldvirka beltinu, en þar eru jarðmyndanir gropnarÓþéttur jarðvegur. og vatn á greiða leið ofan í jörðina. Á þeim hluta Íslands þar sem jarðmyndanir eru eldri og þéttari rennur vatnið alla jafnan á yfirborði landsins. Við það blandast ýmis efni og agnir í vatnið sem gerir það iðulega óhæft til drykkjar. Þar þarf því oft að meðhöndla vatnið svo það verði drykkjarhæft.




Heitt vatn
Á Íslandi eru ýmsar jarðfræðilegar kringumstæður sem eru undirstaða þess að við getum nýtt okkur vatnið á framagreindan hátt. Við finnum jarðhita þar sem grunnvatn hefur komist í návígi við heitt berg, innskotInnskot er berg sem er yngra en jarðlögin umhverfis. eða kviku neðanjarðar. Þá hitnar vatnið, verður eðlisléttara og streymir upp. Í jarðhitavatni er mikið af uppleystum efnum eins og kísli, kalki og brennisteini. Við notum jarðhita til húshitunar og fyrir sundlaugar og böð en einnig er gufa frá jarðhitasvæðum notuð til að búa til rafmagn. Mikið ódýrara er að hita upp hús með jarðhita heldur en með rafmagni. Jarðhitasvæði skiptast upp í lághita- og háhitasvæði. Háhitasvæðin finnast næst flekaskilumFlekaskil er svæði þar sem flekar jarðskorpunnar færast sundur og bergkvika leitar upp um sprungur. á virka gosbeltinu en lághitasvæðin í jaðri flekaskilanna.





Rafmagn
Á heimsvísu er um 20% af rafmagni framleitt með vatnsaflsvirkjunum. Á Íslandi er þetta hlutfall 70%. Í vatnsaflsvirkjunum er þungi og fallhæð vatnsins nýtt til að snúa hverflum til að framleiða rafmagn. Annars vegar eru rennslisvirkjanir sem nýta árvatnið eftir náttúrulegum aðstæðum og hins vegar miðlunarlón en þá er vatninu safnað í lón sem veitt er svo í virkjunina. Hérlendis eru afar fáar rennslisvirkjanir og langflestar falla undir að vera miðlunarlónsvirkjanir. Til að búa til lón þarf að stífla og oft breyta árfarvegi árinnar. Þá getur rennsli ánna minnkað mikið sem gerir það að verkum að farvegir fiska lokast og framburður mikilvægra efna til sjávar og lífríkisins þar minnkar. Við breytingar á vatnsbúskapnum kemur stundum nýtt land í ljós og ásýnd landsins breytist. Gott dæmi um þetta er Stuðlagil á Austurlandi sem notið hefur mikilla vinsælda sem áfangastaður ferðamanna. Á hinn bóginn skemmast búsvæði í sjálfum miðlunarlónunum vegna vatnsborðssveiflna og rofs við fjörubakka. Margar af vatnsaflsvirkjunum okkar eru í jökulám. Jöklar þekja um 11% af flatarmáli Íslands. Þeir fimm stærstu í stærðarröð eru eftirfarandi: Vatnajökull, Langjökull, Hofsjökull, Mýrdalsjökull og Drangajökull. Jöklar jarðarinnar eru mesti forði heimsins af ferskvatni og á Íslandi geyma þeir um 20 falda meðalársúrkomu. Þeir eru uppspretta um þriðjungi þess vatns sem fellur til sjávar á Íslandi og ef þeir bráðna allir getur það hækkað yfirborð sjávar um allan heim um 1 cm. Jökulárnar og vötnin sem koma frá jöklum verða til við leysingu jökulíss og snjóbráðar á jöklum. Í þeim eru miklar rennslissveiflur innan og milli ára. Rysjótt vatnsrennsli, stríður straumur og jökulaur gerir það að verkum að ekki þrífst mikið líf í jökulám. Þar lifa helst kísilþörungar og rykmýslirfur. Jökulár eru gríðarlega mikilvægar lífríkinu þar sem þær bera mikið magn af næringarefnum til sjávar og eru því mikil innspýting fyrir vistkerfin þar.





Hvað er auðlind: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=60548
Náttúruauðlindir, hvað er það? https://landvernd.is/natturuaudlindir-hvad-er-thad/
Hvað er rafmagn: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4471
Flekamörk: https://www1.mms.is/jardfraedi/jardskjalftar.php?id=740
Hvað er náttúruauðlind?
Hægt er að hugsa sér að auðlind fyrir lífveru sé það sem hún þarf til vaxtar og viðhalds. Mikilvægt er því að vernda búsvæði og fæðu lífvera, því það eru þeirra auðlindir. Einnig er talað um að það sem einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir eða þjóðríki geta nýtt sér til þess að starfa á áhrifaríkan hátt séu auðlindir.