Líf í fersku vatni

Líf í fersku vatni

Ferskvatn á Íslandi

Vatn er uppspretta lífs og lífverur finnast alls staðar þar sem vatn er að finna, í stöðuvötnum, ám, votlendi hvers konar, grunnvatni og jafnvel í jökulís.

Ísland er ríkt af ferskvatni. Hér er fremur mikil útkoma en lítil uppgufun sem veldur því að mikið er af ferskvatni og það er mjög sýnilegt. Yfirborðsvatn er það vatn sem sést á yfirborði jarðar. Þetta geta verið ár og stöðuvötn, tjarnir og mýrlendi svo eitthvað sé nefnt. Grunnvatn rennur undir yfirborði jarðar, síast gegnum jarðlög og streymir gjarnan hægt áfram neðanjarðar. Síun vatnsins hreinsar það og því er grunnvatn alla jafnan gott drykkjarvatn. Þar sem grunnvatn streymir uppá yfirborðið kallast uppspretta eða lind og mynda uppspretturnar lindár og lindavötn. Þegar grunnvatnið er komið uppá yfirborð jarðar kallast það yfirborðsvatn.

Lífverur í ferskvatni á Íslandi

Almennt má segja að fáar tegundir lífvera finnist á Íslandi samanborið við meginlöndin í kring. Ástæður þess má einkum rekja til þess að stutt er síðan Ísland kom undan ísaldarjökli eða einungis um 10 til 12 þúsund ár, fjarlægð er mikil frá meginlöndum og hversu smá eyjan okkar er. Sem dæmi má nefna að einungis um fimm tegundir ferskvatnsfiska finnast á Íslandi á meðan það finnast 37 tegundir ferskvatnsfiska í Danmörku, 54 í Noregi og 160 í Kanada. Þessi tegundafæð veitir Íslandi sérstöðu og mjög líklegt að hún ýti undir breytileika í útliti og háttum lífveranna sem hér lifa þar sem samkeppni milli tegunda er minni en ella. Dæmi um þetta má glögglega sjá í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði af bleikju finnast en það eru murta, dvergbleikja, kuðungableikja og sílableikja. Hvert þessara afbrigða hefur aðlagast að mismunandi búsvæðum og fæðu innan Þingvallavatns. Murtan étur fyrst og fremst svifdýr og lifir í vatnsbolnumÞað svæði í vatninu sem er opið vatn., kuðungableikja heldur sig við botninn og étur vatnabobba af botninum, dvergbleikja lifir einnig á botndýrum en er mikið minni en kuðungableikjan og heldur sig fyrst og fremst inni í glufum í hrauninu á botninum. Sílableikja sérhæfir sig í fiskáti eins og nafnið gefur til kynna og nærist helst á hornsílum.

Aðrir fiskar sem finnast í stöðuvötnum eru hornsíli og urriði. Hornsíli eru litlir fiskar sem nærast mest á smágerðum krabbadýrum, vatnabobbum og mýlirfum. Hornsílið er fæða fugla og stærri fiska, bæði sílableikju og urriða. Urriðinn étur einnig vatnabobba, vorflugu- og mýlirfur og smærri bleikju. Þá eru dæmi um að þeir éti jafnvel andarunga og mýs.

Ásamt fiskum finnast margvíslegar lífverur í ferskvatni á Íslandi. Auk baktería og veira eru skordýr þar áberandi og eru þekktar um 140 tegundir skordýra í ferskvatni á Íslandi. Skordýr eru lítil dýr sem þekkja má af því að þau hafa sex fætur (3 fótapör) og líkama sem skiptist í höfuð, frambol og afturbol. Gjarnan eru djúpar skorur á milli þessara líkamshluta, eins og mitti, og draga skordýrin nafn sitt af þessum skorum. Misjafnt er meðal skordýranna að hve miklu leyti þau ala aldur sinn í vatni. Sum skordýrin eyða einungis egg- og lirfustigi í vatninu á meðan önnur eru vatnadýr á öllum stigum lífsins, frá eggi til fullorðinsstigs. Dæmi um skordýr með fyrrnefnda lífsferilinn er rykmý. Þekktar eru um 80 tegundir af rykmýi hér á landi og er þetta einn algengasti hópur skordýra í vatni hérlendis. Lirfur rykmýsins lifa í vatni og eru þar mikilvæg fæða fiska á borð við bleikju og hornsíli en líka anda og fleiri fugla. Rykmýslirfurnar éta kísilþörunga, bifdýr, bakteríur og grotGrot er niðurbrotið lífrænt efni af botni vatnanna þar sem þær lifa. Fullorðnu dýrin nærast lítið en fljúga um loftin og eru þar einnig mikilvæg fæða ýmissa fugla og fleiri dýra.

Kísilþörungar eru litlir einfrumungarLífvera sem er bara ein fruma sem líkt og plöntur geta ljóstillífað. Þeir eru því svokallaðir frumframleiðendur í vistkerfum þar sem þeir búa til sína eigin næringu  til vaxtar og viðgangs með því að beisla orku sólar og umbreyta ólífrænum efnum í lífrænan vef og líffæri. Kísilþörungar eru algengir í vötnum og tjörnum og eru mikilvæg fæða fyrir lítil dýr eins og áður nefndar rykmýslirfur og vatnabobba sem lifa á vatnsbotni, en einnig dýr á borð við árfætlur, vatnaflær og hjóldýr sem lifa í vatnsbolnum. Kísilþörungar hafa utan um sig skel úr kísli og geta verið afar fallegir.

Dýrasvif eru þau dýr sem lifa í vatnsbolnum og eru þar mikilvæg fæða fyrir skordýr, fiska og fugla. Þau svífa og synda um í vatninu og eru gjarnan glær og litlaus svo þau sjáist síður. Dæmi um dýrasvif eru árfætlur og vatnaflær en þær eru lítil krabbadýr. Í stöðuvötnum á Íslandi er einnig algengt að finna svokölluð hjóldýr á meðal dýrasvifsins. Hjóldýr, einnig kölluð þyrildýr, eru lítil fjölfruma dýr, enn þá minni en árfætlur og vatnaflær, sem nærast með því að þyrla upp fæðuögnum með bifhárakransi nærri munnopinu. Dýrasvif er mikilvægur hlekkur í fæðuvef vatna en þau éta svifþörunga á borð við kísilþörunga sem eru frumframleiðendur. Hornsíli og bleikjur éta svo aftur dýrasvifið.

Eins og áður segir þá eru um fimm tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi. Þetta eru lax, urriði, bleikja, áll og hornsíli. Hornsíli er langalgengasti fiskurinn, en líka sá minnsti. Áll er sjaldgæfastur. Allir ferskvatnsfiskar hér á landi eiga það sameiginlegt að geta einnig lifað í söltu vatni, í sjó. Eitthvað eru aðrar tegundir að sækja í sig veðrið á síðustu árum. Þannig finnst hnúðlax æ oftar í ám á Íslandi en húðlax er laxategund sem á uppruna sinn í Kyrrahafinu. Einnig finnst flundra, sem er flatfiskur af kolaætt, núorðið víðast hvar á landinu við árósa en hún var ekki hér fyrir um 20 árum síðan.

Fuglar skipa mikilvægan sess í fæðuvef stöðuvatna á mismunandi fæðuþrepum. Álft, stokkönd og fleiri endur éta vatnagróður. Toppönd er svokölluð fiskiönd og étur hornsíli og smásilung. Kafendur á borð við skúfönd éta rykmýslirfur, svif- og botnlæg krabbadýr og snigla sem þær tína upp í sig af botninum. Fuglarnir eru þannig hluti af fæðuvef stöðuvatnanna.

Búsvæði í vatninu

Stöðuvötn eru gjarnan stór og djúp. Hægt er að skipta búsvæðum stöðuvatna í fjóra hluta: vatnsborðið, vatnsbolinn, vatnsbotninn og ströndina eða fjöruna. Vatnsborðið er yfirborðið á vatninu og þar má gjarnan sjá fugla á sundi. Einnig sjást stundum lítil dýr á borð við flugur og köngulær ganga á yfirborði vatnsins eða lirfur vatnadýra hanga neðan í yfirborðinu ofan í vatninu. Þetta er mögulegt vegna yfirborðsspennu vatnsins, en yfirborðsspenna myndast vegna samloðunar vatnssameindanna og nægir hún til að halda uppi léttum hlutum og litlum dýrum sem dæmi. Vatnsbolurinn er það svæði í vatninu sem er opið vatn. Lífverur sem lifa í vatnsbolnum svífa um í vatninu og eru kallaðar svif (þörungar eru plöntusvif og dýr eru dýrasvif). Vatnsbotninn skipist oft í grýttan og grunnan strandgrunnsbotn næst landi og mjúkan setbotn utar og á meira dýpi. Þarna er heimkynni mjög margra lífvera svo sem botnkrabba, snigla, orma, maura og rykmýslirfa. Fjaran er búsvæðið þar sem vatnsbakkinn mætir vatninu og er oftast grýttur eða sendinn. Þar lifa einkum þörungar, mosadýr og skordýralirfur. Undirlagið hefur mikil áhrif á hvaða lífverur finnast á þessum svæðum.

Mismunandi hlutar stöðuvatns.

Tjarnir eru grunnar og oftast litlar. Skilin milli vatnsbols og botns eru ógreinilegri en í stöðuvötnum. Í tjörnum lifa margar sömu tegundirnar og þrífast í vötnum en meira ber á bjöllum, ræðurum og skötuormum.

Líf í straumvötnum er töluvert frábrugðið lífinu í stöðuvötnum og tjörnum þar sem vatnið er á stöðugri hreyfingu. Því er ekki um eiginlegt svifbúsvæði að ræða, en all ríkulegt líf er á botninum og þar verða lífverur að festa sig með einhverjum hætti til að koma í veg fyrir að hrekjast undan straumnum. Í straumvötnum eru bitmýslirfur mjög áberandi og nærast þær á því sem rekur undan straumnum. Lax, urriði og bleikja þrífast einnig vel í straumvötnum, en ekki hornsíli.

Heimildir og ítarefni 

Reynir Bjarnason og Stefán Bergmann. 1996. Lífríkið í fersku vatni. Námsgagnastofnun

Helgi Hallgrímsson. 1978. Veröldin í vatninu. Bókagerðin Askur. Reykjavík.

Árni Einarsson. 2010. Fæðuvefur Mývatns, Náttúrufræðingurinn 79 (1-4).

Hilmar J. Malmquist. 1998. Ár og vötn á Íslandi: Vistfræði og votlendistengsl. Í: Íslensk votlendi – verndun og nýting (Jón S. Ólafsson ritstj.). Háskólaútgáfan. Bls. 37-55.

Sólrún Harðardóttir. 2001. Vífilsstaðavatn. Gersemi Garðabæjar. Umhverfisnefnd Garðabæjar.

Sólrún Harðardóttir. 2001. Þar á ég heima. Námsefni um náttúru Kópavogs. Umhverfisnefnd Kópavogs. Bls 32-38.

Vefur um náttúru Kópavogs: https://nattura.kopavogur.is/

Rykmý: https://www1.mms.is/smadyr/vatnid/dyr.php?val=10&id=3

Loftlagsbreytingar

Ein af fæðu nákuðungsins er þangdoppa…